Enski boltinn

Sagði varnarleik United eins og hjá tíu ára börnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Demba Ba fagnar eftir að hafa komið Istanbul Basaksehir yfir gegn Manchester United í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í gær.
Demba Ba fagnar eftir að hafa komið Istanbul Basaksehir yfir gegn Manchester United í leik liðanna í Meistaradeild Evrópu í gær. getty/Salih Zeki Fazlioglu

Paul Scholes, fyrrverandi leikmaður Manchester United, dró hvergi af þegar hann lýsti varnarleik síns gamla liðs í fyrra markinu sem það fékk á sig í tapinu fyrir Istanbul Basaksehir, 2-1, í Meistaradeild Evrópu í gær.

Eftir hornspyrnu United á 12. mínútu sem misheppnaðist var Demba Ba, framherji Istanbul Basaksehir, skyndilega aleinn og átti greiða leið að marki gestanna. Senegalinn þakkaði pent fyrir sig og skoraði framhjá Dean Henderson.

„Þetta snýst allt um skipulag. Þetta var eins og hjá tíu ára börnum. Vandræðalegt. Hvað vörnin var að gera þarna hef ég ekki hugmynd um. Þetta mark var brandari. Þetta eru mistök leikmanna, ekki þjálfaranna,“ sagði Scholes sem var sérfræðingur um leikinn á BT Sport.

Rio Ferdinand tók í sama streng og Scholes og sagðist vorkenna Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóra United. 

„Hvar var vörnin? Þarna er ekkert skipulag? Ég vona að Ole segi leikmönnunum að þeir láti hann líta illa út. Ég vona að hann láti í sér heyra í búningsklefanum,“ sagði Ferdinand.

Edin Visca tvöfaldaði forskot Istanbul Basaksehir á 40. mínútu en Anthony Martial minnkaði muninn í 2-1 þremur mínútum síðar. Nær komst United hins vegar ekki og tyrknesku meistararnir fögnuðu góðum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×