Enski boltinn

Mikil pressa á Solskjær í Everton leiknum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær eftir tapleikinn á móti Istanbul Basaksehir í gær.
Ole Gunnar Solskjær eftir tapleikinn á móti Istanbul Basaksehir í gær. EPA-EFE/Tolga Bozoglu

Framtíð knattspyrnustjóra Manchester United var til umræðu í Meistaradeildarmörkunum í gærkvöldi en Manchester United tapaði þá óvænt á móti tyrkneska liðinu Basaksehir í Istanbul.

Spilamennska Manchester United olli miklum vonbrigðum og varnarleikur liðsins í mörkum Tyrkjana var hörmulegur.

Kjartan Atli Kjartansson var með sérfræðingana Reyni Leósson og Atla Viðar Björnsson með sér í gær og þeir fóru yfir þessi vonbrigðarúrslit hjá lærisveinum hins norska Ole Gunnar Solskjær.

„Eins og staðan var góð eftir fyrstu tvo leikina, þessa frábæru sigra í París og heima á móti Lepzig, þá finnst manni pínulítið sorglegt að þeir hafi ekki sótt úrslit í kvöld,“ sagði Atli Viðar Björnsson.

Manchester United vann 2-1 útisigur á Paris Saint Germain og 5-0 heimasigur á RB Leipzig í fyrstu tveimur Meistaradeildarleikjum tímabilsins.

„Ég held að þessi úrslit, þótt staða liðsins sé ágæt í Meistaradeildinni, setji það mikla pressu á leikinn um helgina í ensku úrvalsdeildinni á móti Everton, að ef þeir tapa þeim leik þá held að það gæti verið tekið í gikkinn þarna og eitthvað gert. Þá væru þeir komnir í hræðilega stöðu í deildinni og ekki metta fulla hús í Meistaradeildinni,“ sagði Reynir Leósson.

Manchester United hefur aðeins náð í sjö stig í fyrstu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og er fyrir vikið aðeins í fimmtánda sæti deildarinnar.

„Eftir leikinn um helgina þá er að koma landsleikjahlé og það er spurning hvort þeir nýti það til að gera mögulega einhverjar breytingar,“ sagði Atli Viðar.

„Það er rosalega mikið undir um helgina, bæði fyrir liðið og held ég fyrir þjálfarann að ná úrslitum,“ sagði Reynir.

Leikur Everton og Manchester United fer fram í hádeginu á laugardaginn.

Það má sjá spjall þeirra um Manchester United hér fyrir neðan.

Klippa: Meistaradeildarmörkin: Umfjöllun um Man Utd



Fleiri fréttir

Sjá meira


×