Forsætisráðherra Eþíópíu fyrirskipaði í gær loftárásir í Tigray héraði og óttast margir að borgarastríð sé að brjótast út í þessu næstfjölmennasta ríki Afríku.
Abiy Ahmed forsætisráðherra segir að um löggæsluaðgerðir sé að ræða og hefur hann neitað að hefja viðræður við ráðandi öfl í Tigray héraði, þvert á ráðleggingar Sameinuðu þjóðanna og nágrannaríkja.
Ættbálkurinn sem ræður ríkjum í Tigray stjórnaði í raun Eþíópíu fram til ársins 2018 þegar Abiy náði völdum. Abiy, sem fékk friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir að semja um frið við nágrannaríkið Erítreu, hefur nú hafið sókn inn í Tigray og sakar ráðandi öfl þar um að hafa gert árásir á herstöðvar í héraðinu.
Fólk frá Tigray sakar forsætisráðherrann hins vegar um að brjóta á þeim mannréttindi en ráðherrann kemur úr Oromo ættbálknum, fjölmennasta ættbálki landsins. Nú óttast menn borgarastríð í landinu en Tigray menn eru vel vopnum búnir, auk þess útlit er fyrir að Tigray menn úr stjórnarhernum séu farnir að slást í lið með uppreisnarmönnum í héraðinu.