Viðskipti innlent

Gera yfirtökutilboð í Skeljungi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ingibjörg Pálmadóttir er eigandi 365.
Ingibjörg Pálmadóttir er eigandi 365. Vísir/Vilhelm

Þrjú félög sem samtals eiga 36 prósent hlut í Skeljungi boða yfirtökutilboð í félaginu innan fjögurra vikna. Yfirtökuverðið mun hljóða upp á 8,315 krónur á hlut, eða 6,6% yfir markaðsvirði við lok viðskipta á föstu­dag. Þetta kemur fram í tilkynningu félaganna til Kauphallar.

Félögin eru RES 9 ehf., 365 ehf. og RPF ehf. Þau hafa gert með sér samkomulag um að leggja eignarhluti í Skeljungi yfir í félagið Streng ehf. RES 9 mun fara með 38% hlut í Strengi, 365 einnig 38% og RPF 24%.

Strengur mun samkvæmt framangreindu fara með eignar- og atkvæðisrétt fyrir samtals 716.116.288 hlutum í Skeljungi eða sem samsvarar 36,06% af heildarhlutafé Skeljungs, eða 36,88% af útistandandi hlutum.

RES 9 er í eigu RES II ehf., sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Arngrímsdóttur, og No. 9 Investments Limited. 

365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, er eiginmaður Ingibjargar og varamaður í stjórn 365. 

RPF er í jafnri eigu Loran ehf. sem er í eigu Þórarins A. Sævarssonar, sem er stjórnarmaður í Skeljungi, og Premier eignarhaldsfélags, sem er í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×