Innlent

Hafa hvorki getað rætt við öku­mann né far­þega

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bíllinn alelda á vettvangi slyssins á föstudag.
Bíllinn alelda á vettvangi slyssins á föstudag.

Karl og kona sem lentu í alvarlegu umferðarslysi í Öxnadal í Hörgársveit á föstudag liggja enn mikið slösuð á sjúkrahúsi. Lögregla hefur ekki getað rætt við fólkið síðan slysið varð en vonast er til þess að vitnisburður þess geti varpað ljósi á tildrög slyssins.

Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Norðurlandi eystra segir í samtali við Vísi að rannsóknin á slysinu miði að því að taka út vettvanginn, sem spanni mjög langa vegalengd í þessu tilviki. Þrívíddarskanni sé notaður til þess.

Þá taki við eftirvinnsla á gögnum lögreglu og tæknideildar, auk þess sem bíllinn sjálfur verður rannsakaður.

„Þetta mun taka dálítinn tíma því að staðan í dag er þannig að við getum hvorki rætt við ökumann né farþega,“ segir Bergur. Vitnisburður þeirra muni vonandi varpa bestu ljósi á tildrög slyssins. Að svo stöddu sé ekki hægt að veita frekari upplýsingar um rannsóknina.

Greint var frá því um helgina að fólkið, maður og kona á þrítugsaldri, hefði slasast alvarlega í slysinu og verið lagt inn á gjörgæslu. Bergur hefur ekki upplýsingar um hvort fólkið liggi enn á gjörgæslu en segir það mikið slasað; með fjöláverka en þó ekki í lífshættu.

Slysið varð á þjóðvegi 1 til móts við bæinn Syðri-Bægisá í Öxnadal í Hörgársveit rétt fyrir klukkan hálf þrjú á föstudag. Samkvæmt ummerkjum á á vettvangi var bifreiðinni ekið til norðurs en hafnaði síðan út af veginum og valt nokkrar veltur. Við það kom eldur upp í henni og varð hún fljótt alelda.

Manninum tókst að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum en konan vankaðist við veltina og þurfti að hjálpa henni út. Þau voru svo bæði flutt með sjúkrabílum á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×