Erlent

Fimmta hvert sýni í Stokk­hólmi já­kvætt

Atli Ísleifsson skrifar
Stortorget í Gamla Stan í Stokkhólmi. Alls hafa rúmlega 146 þúsund manns greinst með Covid-19 í Svíþjóð frá upphafi faraldursins.
Stortorget í Gamla Stan í Stokkhólmi. Alls hafa rúmlega 146 þúsund manns greinst með Covid-19 í Svíþjóð frá upphafi faraldursins. Getty

Alls voru sýni tekin hjá um 42 þúsund manns í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í síðustu viku og greindust um fimmti hver með Covid-19. Álag á heilbrigðiskerfið í Svíþjóð hefur aukist mikið síðustu daga og vikur vegna fjölgunar smita.

„Önnur bylgjan er hafin,“ segir Johan Styrud, formaður Sambands lækna í Stokkhólmi, í samtali við DN.

Fyrir um viku síðan voru 627 inniliggjandi á sjúkrahúsum í Svíþjóð vegna Covid-19. Nú er fjöldinn rétt rúmlega þúsund og þar af eru 125 á gjörgæslu. Í Danmörku er fjöldinn til samanburðar 196 á sjúkrahúsum og þar af 33 á gjörgæslu.

Claes Ruth, yfirmaður á Karolinska háskólasjúkrahúsinu, segir smitfjöldann nú fara ört vaxandi. Ný met séu slegin í hverri viku, bæði hvað varðar fjölda sýna og fjölda smitaðra.

Á Stokkhólmssvæðinu eru nú 349 á sjúkrahúsum vegna Covid-19, samanborið við 203 í síðustu viku.

Á Skáni, syðst í Svíþjóð, hefur smitfjöldinn sömuleiðis vaxið að undanförnu, en landshlutinn fór um margt betur út úr faraldrinum fyrstu mánuðina samanborið við marga aðra landshluta. Nú eru 111 inniliggjandi á sjúkrahúsum vegna Covid-19 á Skáni.

Alls hafa rúmlega 146 þúsund manns greinst með Covid-19 í Svíþjóð frá upphafi faraldursins. Þá eru skráð dauðsföll vegna faraldursins nú rúmlega sex þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×