Erlent

„Fjögur ár til viðbótar!“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stuðningsmenn Trump klöppuðu og hrópuðu þegar forsetinn yfirgaf Hvíta húsið í morgun.
Stuðningsmenn Trump klöppuðu og hrópuðu þegar forsetinn yfirgaf Hvíta húsið í morgun. epa/Shawn Thew

Donald Trump Bandaríkjaforseti yfirgaf Hvíta húsið í morgun við lófatak, fagnaðaróp og flaut en hundruð stuðningsmanna hans söfnuðust saman í Washington í dag til að mótmæla meintum „stuldi“ á forsetakosningunum.

„Besti forseti í heimi“ og „Stöðvið þjófnaðinn“ stóð á mótmælaspjöldum viðstaddra. Einnig „Allir um borð í Trump-lestina“ og „Trump 2020: Með lífinu, með Guði, með byssum“.

Stuðningsmenn Trump hrópuðu jafnframt „USA! USA!“ og „Fjögur ár til viðbótar! Fjögur ár til viðbótar!“

Með og á móti

„Við þurfum að fá forsetann okkar aftur og við þurfum fjögur ár í vðbót,“ sagði Mike Sembert frá Flórída. Hann sagði kosningasvik hafa átt sér stað og að „ólöglegir og látnir“ hefðu greitt atkvæði.

„Biden vann, Trump tapaði,“ sagði hins vegar Sunsara Taylor, ein þeirra hundruða sem hafa safnast saman í höfuðborginni til að mótmæla Trump. Sagði hún nauðsynlegt að stöðva strax tilraunir til að snúa úrslitunum. „Kosningarnar eru búnar“.

Trump neitar enn að játa ósigur og meirihluti repúblikana hafa ýmist lýst stuðningi við forsetann eða þegið þunnu hljóði. „Ég verð ekki forseti fyrr en á næsta ári,“ sagði Joe Biden, réttmætur sigurvegari kosninganna, og hvatti ríkisstjórn Trump til að beita sér af alvöru gegn útbreiðslu Covid-19.

Hundruð komu saman til að styðja sinn mann.epa/Shawn Thew



Fleiri fréttir

Sjá meira


×