Erlent

Þýskar kórónu­veiru­aug­lýsingar vekja mikla at­hygli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn lýsir vetrinum árið 2020 á dramatískan hátt.
Maðurinn lýsir vetrinum árið 2020 á dramatískan hátt. Skjáskot

Sófakartöflur fá uppreisn æru í nýrri auglýsingaherferð þýsku ríkisstjórnarinnar þar sem íbúar landsins eru hvattir til þess að halda sig heima í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn. Auglýsingarnar hafa vakið mikla athygli og þykja ansi sniðugar.

Í fyrstu auglýsingunni sem gefin var út, og sjá má hér að neðan með enskum texta, má sjá eldri mann í framtíðinni rifja upp veturinn 2020 á dramatískan hátt. Myndbandið þykir minna á myndbönd sem gerð hafa verið þar sem eldri borgarar rifja upp hvernig það hafi verið að upplifa sögulega atburði á borð við seinni heimstyrjöldina, svo dæmi séu tekin.

„Örlög Þýskalands voru í okkar höndum, við söfnuðum öllum okkar kröftum og gerðum það sem var vænst af okkur, hið eina rétta í stöðunni,“ segir maðurinn á dramatískan hátt.

„Við gerðum ekki neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut.“

Þýsk yfirvöld hafa sagt að boðskapur auglýsingarinnar sé skýr, það að takmarka eins og hægt er að hitta aðra borgara á meðan faraldurinn gengur yfir, svo hefta megi smit eins og mögulegt er.

„Sófarnir voru vígstöðvarnar og þolinmæðin var vopnið okkar.“

Alls eru auglýsingarnar þrjár. Í auglýsingu tvö má sjá sjónarhorn kærustu mannsins og í því þriðja má sjá mann líta aftur um öxl og rifja upp hversu mikið hann spilaði tölvuleiki á tímum samkomubanns vegna faraldursins.

Auglýsingarnar hafa sem fyrr segir vakið töluverða athygli og hafa á annað hundrað þúsund manns horft á textaða útgáfu af fyrstu auglýsingunni.

Faraldurinn er á talsverðri siglingu í Þýskalandi þar sem tíu þúsund tilfelli greindust síðastliðinn sólarhring, 62 létust af völdum COVID-19. Alls hafa tólf þúsund manns látist af völdum COVID-19 í Þýskalandi frá því í vor.

Yfirvöld hafa lokað veitingastöðum, börum og öðrum samkomustigum í von um að hefta útbreiðslu faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×