Enski boltinn

Liverpool fólkið trúir þessu ekki: Coote í VAR-herberginu  á Leicester leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Coote með flautuna í leik Crystal Palace og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni.
David Coote með flautuna í leik Crystal Palace og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Peter Cziborra

Stuðningsmenn Liverpool sem og margir aðrir eru ekki búnir að gleyma frammistöðu Varsjárinnar í leik Everton og Liverpool fyrir mánuði síðar. Nú hefur enska úrvalsdeildin rifið upp ekki svo gömul sár.

Liverpool liðið er að ganga í gegnum mjög erfiðar vikur þar sem mikið erum meiðsli og veikindi innan liðsins. Liðið þarf því að tefla fram hálfgerðu varaliði í toppslagnum á móti Leicester City um næstu helgi.

Það var því ekki á bætandi fyrir stuðningsmenn Liverpool að frétta af því hver mætir aftur í VAR-herbergið í Leicester leiknum.

Enska úrvalsdeildin hefur gefið það út Chris Kavanagh muni dæma leikinn, Daniel Cook og Marc Perry verða aðstoðardómarar og Paul Tierney er fjórði dómarinn. Stærstu fréttirnar eru þó að David Coote verður VAR-dómari í leiknum.

David Coote var einnig í VAR-herberginu í leik Everton og Liverpool á dögunum þegar Jordan Pickford fékk enga refsingu fyrir að enda tímabilið hjá Virgil van Dijk með sóðalegri tæklingu. Coote dæmdi Van Dijk rangstæðan og að hans mati var þá leyfilegt fyrir Pickford að tækla hann svona illa.

Liverpool gerði athugasemd við frammistöðu VAR-dómarans eftir leikinn en það skilaði engu. David Coote var mættur með flautuna í næstu umferð og er nú mánuði síðar aftur í VAR-herberginu í Liverpool leik. Það er heldur ekki neinn venjulegur leikur heldur toppslagur á móti Leicester City.

Það var því ekkert skrýtið að stuðningsmenn Liverpool liðsins hafi hneykslast mikið á þessu á samfélagsmiðlum.

Þeir geta huggsað sig við það að Liverpool hefur unnið alla sex deildarleikina sem Chris Kavanagh hefur dæmt þar á meðal 2-1 sigur á Leicester í október síðastliðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×