Erlent

Sjö látnir eftir að for­seta­fram­bjóðandi var hand­tekinn í Úganda

Atli Ísleifsson skrifar
Poppstjarnan Bobi Wine er sá sem er talinn líklegastur til að geta velgt sitjandi forseta Úganda undir uggum í forsetakosningunum í janúar.
Poppstjarnan Bobi Wine er sá sem er talinn líklegastur til að geta velgt sitjandi forseta Úganda undir uggum í forsetakosningunum í janúar. EPA

Að minnsta kosti sjö eru látnir og á annan tug slasaðir eftir að óeirðir brutust út á götum í Úganda í kjölfar þess að poppstjarnan og forsetaframbjóðandinn Bobi Wine var handtekinn.

Til átaka kom milli stuðningsmanna Wine og öryggissveita, en Wine er helsti andstæðingur sitjandi forseta, Yoweri Museveni, og talinn sá sem einna helst gæti velgt forsetanum undur uggum í forsetakosningnunum sem fyrirhugaðar eru í landinu 14. janúar næstkomandi.

Átök blossuðu upp í gær þegar Wine var handtekinn í annað sinn í þessum mánuði.

Hinn 38 ára Wine hefur lengi starfað sem söngvari, en hann heitir Robert Kyagulanyi réttu nafni. Hann var handtekinn vegna gruns um að hafa brotið gegn sóttvarnareglum landsins, en forsetaframbjóðendur mega samkvæmt reglunum ekki ávarpa fundi sem fleiri en tvö hundruð manns sækja. Erlendir fjölmiðlar segja Wine enn vera í haldi lögreglu, daginn eftir handtökuna.

Wine var fyrst handtekinn 3. nóvember, skömmu eftir að hafa tilkynnt um framboð sitt til forseta. Wine nýtur sérstakrar hylli meðal yngri kynslóðarinnar í landinu.

Yoweri Museveni hefur gegnt embætti forseta Úganda frá árinu 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×