Fótbolti

Undrabarnið hjá Dortmund er löglegur og gæti sett tvö met á næstu dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Youssoufa Moukoko er hungraður í spilatíma með aðalliði Borussia Dortmund nú þegar hann er orðinn sextán ára og löglegur.
Youssoufa Moukoko er hungraður í spilatíma með aðalliði Borussia Dortmund nú þegar hann er orðinn sextán ára og löglegur. Getty/Max Maiwald

Það þekkja kannski ekki margir knattspyrnuáhugamenn nafnið Youssoufa Moukoko en það gæti breyst fljótt.

Youssoufa Moukoko heldur upp á sextán ára afmælið sitt í dag og er þar með orðinn löglegur í þýsku Bundesligunni.

Þessi stórefnilegi fótboltastrákur hefur verið óstöðvandi með unglingaliðum Borussia Dortmund á síðustu árum þar sem hann hefur skorað 141 mark í 88 leikjum með yngri liðum félagsins frá 2017.

„Það er mitt markmið að verða atvinnumaður hjá Dortmund, vinna Meistaradeildina með Borussia og fá Gullboltann,“ sagði Youssoufa Moukoko fullur sjálfstrausts við blaðamenn þegar hann var aðeins þrettán ára gamall.

Borussia Dortmund hafði það mikla trú á honum að hann er á leikmannalista félagsins í bæði þýsku deildinni og í Meistaradeildinni þrátt fyrir að hann hafi ekki verið löglegur fyrr en í dag, 20. nóvember, á sextán ára afmælisdegi sínum.

Dortmund barðist líka fyrir því að þýska knattspyrnusambandið lækkaði lágmarksaldurinn í sextán ár en hann var áður sautján ár. Það er allt sem bendir til þess að þýska félagið ætli sér að nota strákinn.

Undrabarnið hjá Dortmund gæti sett tvö met á næstu fimm dögum. Ef hann spilar í deildarleiknum á móti Herthu Berlin á laugardaginn þá yrði hann yngsti leikmaðurinn til að spila atvinnumannaleik í Þýskalandi. Hann gæti einnig bætt metið yfir yngsta leikmann Meistaradeildarinnar spili hann á móti Club Brugge þremur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×