Lífið

Sólrún Diego kölluð á vettvang: „Hver gengur svona um?“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Það var allt á rúi og stúi þegar komið var á vettvang.
Það var allt á rúi og stúi þegar komið var á vettvang. Stöð 2

Gummi Ben, Sóli Hólm og Sólrún Diego fóru á kostum í grínatriði í Föstudagskvöldi í gær þar sem þremenningarnir voru á vettvangi ótrúlegs óþrifnaðar.

Atriðið er í stíl Ummerkja, sakamálaþátta sem sýndir eru á Stöð 2. Þar er Sóli í hlutverki ræstingavarðstjórans Sigtryggs Tryggvasonar sem fær tilkynningu frá manni sem heitir Hreinn Ilmur Antonsson, og er leikinn af Gumma Ben. Sá hafði komið á vettvang mikils subbuskapar og hringdi að sjálfsögðu strax í Þrifalínuna.

Í innslaginu má meðal annars sjá Hrein í öngum sínum þegar Þrifalínan mætir á vettvang. „Hver gengur svona um?“ spurði hann ítrekað, og stóð ekki á sama.

Það kom svo í hlut Sólrúnar Diego að bjarga málunum, en hún leikur sjálfa sig í innslaginu. Sólrún hefur getið sér gott orð á samfélagsmiðlum sem einn helsti þrifa- og hreinlætissérfræðingur landsins og því eðlilegt að hún hafi verið kölluð á vettvang.

Sjón er sögu ríkari og innslagið má sjá hér að neðan. Rétt þykir að vara snyrtipinna við því að horfa á innslagið, þar sem meðal annars má sjá bananahýði í sófa og snakkmylsnu á stofuborði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×