Fótbolti

Gengu inn á með grímur í mótmælaskyni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gremio-leikmenn gengu inn á völlinn með grímur fyrir andlitinu.
Gremio-leikmenn gengu inn á völlinn með grímur fyrir andlitinu. vísir/getty

Leikmenn brasilíska fótboltaliðsins Gremio voru með grímur þegar þeir gengu inn á völlinn fyrir leik gegn Sao Luiz í gær.

Með þessu uppátæki vildu þeir mótmæla því að fótboltaleikir í Brasilíu færu fram á meðan kórónuveirufaraldurinn geysar.

Leikmenn Gremio spiluðu þó ekki með grímurnar í leiknum sem þeir unnu með þremur mörkum gegn tveimur. Leikurinn var spilaður fyrir luktum dyrum.

„Heimurinn hefur stöðvast, ætti brasilískur fótbolti ekki að vera stöðvaður líka?“ spurði Renato Portaluppi, þjálfari Gremio, eftir leikinn. 

„Þetta eru okkar skilaboð og vonandi verður hlustað á þau. Skynsemin ræður vonandi för,“ bætti þjálfarinn við.

Í gærkvöldi ákvað brasilíska knattspyrnusambandið að fresta öllum leikjum í landskeppnum. Ríkjasambönd eiga þó að ákveða sjálf hvort leikir á þeirra vegum fari enn fram.

Grímuklæddir Gremio-menn stilla sér upp fyrir leikinn gegn Sao Luiz.vísir/getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×