Eins og við mátti búast er Diego Maradona áberandi á forsíðum dagblaða víðs vegar um heim. Argentínski snillingurinn lést í gær, sextugur að aldri.
Ensku blöðin bjóða mörg hver upp á svipaða forsíðu, mynd af marki Maradonas gegn Englandi á HM 1986 sem hann skoraði með „hendi Guðs“ og fyrirsögnina að Maradona sé nú í höndum Guðs. Á forsíðu Daily Star er einnig spurt hvar VAR hafi verið í leiknum á HM í Mexíkó fyrir 34 árum.
Á forsíðu franska blaðsins L'Equipe er stór mynd af Maradona með fyrirsögninni Dieu Est Mort, eða Guð er dauður og vísað í fræg ummæli Friedrich Nietzsche.
Maradona ratar einnig á forsíðu Fréttablaðsins en þar er mynd frá grátandi fólki á götum Napólí undir stórri mynd af Argentínumanninum.