Sport

Nýliðinn fór á kostum á risasviði Kúrekana á Þakkargjörðardaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Gibson hafði ástæðu til að brosa í gær.
Antonio Gibson hafði ástæðu til að brosa í gær. AP/Susan Walsh

Detroit Lions og Dallas Cowboys voru enn á ný veisluhaldarar í NFL-deildinni á Þakkargjörðardaginn í gær en fengu bæði stóran skell.

Houston Texans og Washington fögnuðu sigri í leikjum NFL-deildarinnar á Þakkargjörðardaginn í gær því fastagestirnir á þessum stóra degi í Bandaríkjunum töpuðu bæði á heimavelli.

Washington liðið vann 41-16 sigur á heimavelli Dallas Cowboys en staðan var 17-13 í hálfleik. Dallas liðið gerði stór mistök á mikilvægum tímapunktum í leiknum og tapaði sínum áttunda leik á tímabilinu.

Sigur Washington þýðir að liðið er á toppnum í Austurriðli Þjóðardeildarinnar (NFC) þrátt fyrir að hafa aðeins unnið 4 af 11 leikjum sínum. Dallas er aftur á móti botninum og hefur aðeins unnið 1 af 4 innbyrðis leikjum í riðlinum.

Nýliðinn Antonio Gibson fór á kostum á heimavelli Kúrekana á Þakkargjörðardaginn en þessi skemmtilegi hlaupari skoraði þrjú snertimörk í leiknum og er fyrsti nýliðinn til að gera það á þessum degi síðan 1998.

Houston Texans vann 41-25 sigur á heimavelli Detroit Lions. Detroit byrjaði vel og var í góðum málum þar til að varnartröllið J.J. Watt kveikti í sínum mönnum með því að stela sendingu og skora snertimark strax í kjölfarið.

Hinn síungi hlaupari Adrian Peterson skoraði tvö snertimörk og kom Detriot í 14-13 með því síðara. Það var hins vegar í síðasta sinn í leiknum sem Ljónin voru yfir. Texans liðið fór í gang og vann að lokum sannfærandi sigur.

Leikstjórnandinn Deshaun Watson átti mjög góðan leik hjá Houston Texans og sendi fjórar snertimarkssendingar þar af tvær þeirra á útherjann Will Fuller með aðeins rúmlega tveggja mínútna millibili.

Sigur Houston Texans, sem var sá fjórði í sjö leikjum (þriðji í síðustu fjórum leikjum) síðan Romeo Crennel tók við þjálfun liðsins tímabundið en hann er elsti þjálfarinn í sögu NFL enda orðinn 73 ára gamall. Houston rak þjálfarann eftir tap í fyrstu fjórum leikjunum en er nú aftur komið inn í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×