Fjórtán greindust með kórónuveiruna innanlands í gær. Tveir voru utan sóttkvíar. Fólki í einangrun fer fækkandi en í dag eru 195 í einangrun miðað við 212 í gær. Þá eru 544 í sóttkví í dag samanborið við 679 í gær.
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segir of snemmt að segja til um hvort smitum fari fækkandi eða hvort þetta séu tilviljanir.
„Það er aðeins of snemmt að lesa í tölurnar til lengri tíma en þetta eru sannarlega jákvæðar vísbendingar sem við erum að sjá, bæði varðandi fjöldann og hvað hátt hlutfall er í sóttkví. Í gær voru allir í sóttkví og núna eru rúmlega 80 prósent í sóttkví, þannig að við viljum sjá meira af þessu,“ segir Rögnvaldur.
Hann segir of snemmt til að hægt sé að segja til um hvort von sé á tilslökunum um jólin.
„Við þurfum að fá meiri upplýsingar til þess að byggja á. Við verðum að sjá hvort þetta sé eitthvað tilfallandi eða hvort það sé fylgni í þessu og þetta muni haldast. En þetta verður sennilega haft til hliðsjónar þegar teknar verða ákvarðanir um næstu slakanir og hvort það verði tilslakanir,“ segir Rögnvaldur.