Þetta er áttunda frumgerð Starship og ber einkennið SN8.
Starship er ætlað að að flytja allt að hundrað menn og birgðir til tunglsins og jafnvel til mars.
Elon Musk, stofnandi SpaceX, hefur sagt að hann telji um þriðjungslíkur á því að þeim takist að lenda geimskipinu aftur. Það fæli þó ekki í sér að tilraunin væri misheppnuð þar sem að um frumgerð er að ræða og að markmiðið sé að læra af geimskotinu. Markmið tilraunaskotsins er að kanna getu eldflauganna sem eiga að bera Starship út í heim, vængbörð geimskipsins og margt annað, samkvæmt tilkynningu frá SpaceX.
Þetta yrði í fyrsta sinn sem einhverjum tækist að lenda eldflaug af þessari stærð aftur. SpaceX hefur byggt upp mikla reynslu í því að skjóta eldflaugum út í geim og lenda þeim á nýjan leik og þannig vilja forsvarsmenn fyrirtækisins koma gervihnöttum, birgðum og jafnvel mönnum út í geim með mun minni kostnaði en gengur og gerist.
Out on the pad in South Texas pic.twitter.com/RcYOXXpTc2
— Elon Musk (@elonmusk) December 7, 2020
Ekki er fullljóst hvort að geimskipinu verði skotið á loft í dag. Á vef SpaceX segir að áætlun fyrirtækisins verði líklega fyrir breytingum. Spaceflight Now segir að áætlanir Space segi til um að hægt væri að fresta skotinu og gera frekari tilraunir á morgun og fimmtudag.
Þar sem óvíst er hvenær af skotinu verður eru áhugasamir hvattir til að fylgjast með SpaceX á samfélagsmiðlum, eins og Twitter.
Samkvæmt þeirri áætlun sem gildir þegar þetta er skrifað stendur til að hefja útsendingu frá tilraunaskotinu klukkan tvö.
Uppfært: Búið er að fresta tilraunaskotinu til í fyrsta lagi klukkan fjögur.
Hægt verður að fylgjast með í spilaranum hér að neðan.
Í byrjun sumars tilkynnti Musk að þróun Starship væri í forgangi hjá fyrirtækinu. Það var skömmu eftir að fyrirtækið náði þeim áfanga að byrja að skjóta mönnum út í geim frá Bandaríkjunum í fyrsta sinn frá árinu 2011.
Starfsmenn SpaceX hafa gert margar tilraunir með aðrar frumgerðir Starship á árinu. Í einni slíkri var frumgerð skotið 150 metra á loft og lent aftur. Ein þeirra sprakk þó í loft upp í maí.