Enski boltinn

Steinlágu á móti Juventus en eru samt líklegri sigurvegarar en Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola kyssir Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Barcelona á Wembley árið 2011.
Pep Guardiola kyssir Meistaradeildarbikarinn eftir sigur Barcelona á Wembley árið 2011. Getty/Vi-Images

Manchester City er sigurstranglegasta liðið af þeim sextán sem eru eftir í Meistaradeildinni.

Tölfræðivefurinn Fivethirtyeight hefur nú tekið saman sigurlíkur félaganna í Meistaradeildinni eftir að ljóst varð hvaða sextán lið komast í útsláttarkeppnina.

Þrjú sigurstranglegustu liðin í Meistaradeildinni eftir áramót eru Manchester City, Bayern München og Barcelona.

Það er ekki hægt að segja annað að það komi svolítið á óvart að sjá Barcelona svo ofarlega enda hefur frammistaða liðsins ekki verið upp á marga fiska upp á síðkastið.

Barcelona tapaði 3-0 á heimavelli á móti Juventus í lokaumferðinni en hafði reyndar unnið fyrstu fimm leiki sína í keppninni fram að því. Juventus er sjö sætum neðar á listanum og ef eitthvað kveikir í Cristiano Ronaldo þá er það að sjá svona spár.

Manchester City er annars í nokkrum sérflokki hjá því félagið er með 24 prósent sigurlíkur í Meistaradeildinni í ár. City hefur aldrei unnið Meistaradeildina en hefur verið líklegt til afreka undanfarin ár. Það hefur hins vegar ekki tekist hjá Pep Guardiola að fara lengra með liðið en í átta liða úrslitin undanfarnar þrjár leiktíðir.

Sigurlíkur Evrópumeistara Bayern eru sautján prósent og það eru síðan tíu prósent líkur á sigri Börsunga.

Liverpool er í fjórða til sjötta sætinu með sjö prósent sigurlíkur eða þær sömu og Paris Saint Germain og Chelsea.

Liðin sem eiga minnstu möguleikana eru lið Porto, Borussia Mönchengladbach og Lazio en það væri draumdráttur fyrir lið að mæta þeim í sextán liða úrslitunum þegar dregið verður í næstu viku.

Hér fyrir neðan má sjá sigurlíkur allra sextán liðanna.

Sigurlíkur liða í Meistaradeildinni 2020-21:

(Útreikningar hjá Fivethirtyeight)

  • 1. Manchester City - 24%
  • 2. Bayern Munich - 17%
  • 3. Barcelona - 10%
  • 4. Liverpool - 7%
  • 5. Chelsea - 7%
  • 6. Paris Saint-Germain - 7%
  • 7. Borussia Dortmund - 6%
  • 8. Real Madrid - 6%
  • 9. Atletico Madrid - 5%
  • 10. Juventus - 3%
  • 11. RB Leipzig - 3%
  • 12. Atalanta - 1%
  • 13. Sevilla - 1%
  • 14. Borussia Mönchengladbach - <1%
  • 15. FC Porto - <1%
  • 16. Lazio - <1%



Fleiri fréttir

Sjá meira


×