Körfubolti

ÍR áfrýjar máli Sigurðar til Landsréttar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson hafði betur gegn ÍR í Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið fer nú fyrir Landsrétt.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson hafði betur gegn ÍR í Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið fer nú fyrir Landsrétt. Vísir/Bára

Körfuknattleiksdeild ÍR hefur áfrýjað úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu gegn Sigurði Gunnari Þorsteinssyni til Landsréttar.

Þann 17. nóvember síðastliðinn var Körfuknattleiksdeild ÍR dæmd til að greiða Sigurði tæpar tvær milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna launa.

Sigurður gekk í raðir ÍR haustið 2019 og skrifaði undir tveggja ára samning við félagið. Hann meiddist í fyrsta leik sínum með ÍR og lék ekkert meira með tímabilið 2019-20. Í vor rifti ÍR svo samningi sínum við Sigurð en félagið ákvað að greiða honum ekki laun þar sem það taldi hann ekki hafa uppfyllt sinn hluta samningsins.

Sigurður höfðaði því mál á hendur ÍR og krafði félagið um tæpar tvær milljónir króna í vangoldin laun.

Dómur í málinu féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. nóvember og var Sigurði í hag. Í dómnum kemur fram að meiðsli leikmannsins hafi ekki verið réttmæt ástæða til að segja samningi hans upp.

Í dag áfrýjaði ÍR dómi Héraðsdóms til Landsréttar. Sveinbjörn Claessen rekur málið fyrir hönd ÍR en hann er fyrrverandi leikmaður körfuboltaliðs félagsins.

Í sumar samdi Sigurður við nýliða Hattar á Egilsstöðum. Hann skoraði 21 stig og tók ellefu fráköst í fyrsta, og enn eina, leik liðsins á tímabilinu, í 94-101 tapi fyrir Grindavík í Domino's deildinni.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×