Handbolti

Segir líklegt að Alexander fari með á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Petersson verður væntanlega í æfingahópi íslenska landsliðsins sem verður kynntur á eftir.
Alexander Petersson verður væntanlega í æfingahópi íslenska landsliðsins sem verður kynntur á eftir. EPA/ANDREAS HILLERGREN

Alexander Petersson gæti farið með íslenska karlalandsliðinu í handbolta á HM í Egyptalandi í næsta mánuði. Henry Birgir Gunnarsson greindi frá þessu í Seinni bylgjunni í gær.

Guðmundur Guðmundsson tilkynnir í dag æfingahóp íslenska landsliðsins fyrir HM. Í honum verður í mesta lagi 21 leikmaður. Henry Birgir segir líklegt að hinn fertugi Alexander verði þar á meðal.

„Ég hef heyrt það að Alexander sé nokkuð heitur fyrir því að vera með. Og ég hef líka heyrt það að hann verði mjög líklega í þessum æfingahópi,“ sagði Henry Birgir í Seinni bylgjunni. Hann bætti við að ef Alexander verði í æfingahópnum fari hann væntanlega með á HM.

Ásgeir Örn Hallgrímsson tók þessum fregnum fagnandi.

„Það er bara geggjað. Ef hann nennir þessu og er tilbúinn að gefa kost á sér tökum við hann fegins hendi. Algjörlega. Hann var virkilega góður í fyrra,“ sagði Ásgeir Örn og vísaði til EM í Noregi, Svíþjóð og Austurríki þar sem Alexander lék mjög vel.

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um Alexander



Fleiri fréttir

Sjá meira


×