Guðrún fékk þær upplýsingar að allir yrðu látnir vita en raunin var sú að engin svör fengust fyrr en um tveimur tímum eftir að aurskriðan féll.
„Ég get alveg verið sammála því og verkferlar eru þannig að af svona uppákomum munum við læra. Ég get hins vegar staðfest það að viðbrögðin og vettvangsstjórn hefur staðið sig gríðarlega vel, starfsfólk sveitarfélagsins og aðrir sem hafa komið að málum hafa unnið og brugðist mjög vel við,“ sagði Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings í kvöldfréttum Stöðvar 2.
„Þetta er ekki einfalt en það er unnið núna nokkuð ötullega í því að lágmarka þær skemmdir sem mögulega verða. En þetta er ekki einfalt og það er alveg ljóst að við munum læra af þessu. Það verður horft til þess að meta hvað má gera betur. Það má alltaf gera betur.“
Hvernig meturðu næstu daga og næstu skref?
„Það sem menn eru að horfa til núna er að koma í veg fyrir skemmdir eins og mögulegt er og ég hef verið hér núna með starfsfólki sveitarfélagsins og farið hér um og séð það að fólk hefur unnið nokkuð markvisst að því að gera það sem hægt er að gera, þetta er ekki einfalt verk en það er unnið vel að þessu,“ sagði Björn Ingimarsson.