Enski boltinn

Hóp­smit hjá Millwall | Næstu leikjum frestað

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Daði í baráttunni við Lewis Holtby hjá Blackburn Rovers. Jón Daði fær óvænt frí nú í nokkra daga yfir jólin vegna kórónuveirusmita í leikmannahópi Millwall.
Jón Daði í baráttunni við Lewis Holtby hjá Blackburn Rovers. Jón Daði fær óvænt frí nú í nokkra daga yfir jólin vegna kórónuveirusmita í leikmannahópi Millwall. Clive Brunskill/Getty Images

Ljóst er að landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson fær nokkurra daga frí eftir að upp kom hópsmit hjá liði hans Millwall í ensku B-deildinni. Hefur næstu tveimur leikjum liðsins verið frestað.

Liðið átti að mæta Bournemouth þann 26. desember og Watford á heimavelli þremur dögum síðar. Nú er ljóst að leikirnir fara ekki fram eftir að einstaklingar innan herbúða Millwall greindust með kórónuveiruna.

„Þeir sem hafa greinst með kórónuveiruna eru nú komnir í einangrun og þeir sem hafa verið í kringum þá eru komnir í sóttkví. Æfingasvæði félagsins hefur verið lokað til þess að vernda bæði starfslið og leikmenn félagsins,“ segir í tilkynningu félagsins.

Millwall hefur átt erfitt uppdráttar í vetur og er í 16. sæti deildarinnar með 25 stigi eftir 20 leiki. Jón Daði hefur ekki átt fast sæti í vetur en lagði upp eina mark liðsins í 1-1 jafntefli gegn Nottingham Forest á dögunum. Þá skoraði hann sitt mark í vetur fyrir skömmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×