Erlent

Skaut á fólk af handahófi og banaði þremur

Samúel Karl Ólason skrifar
Sérsveitarmaðurinn Duke Webb er grunaður um að hafa skotið þrjá til bana og sært þrjá.
Sérsveitarmaðurinn Duke Webb er grunaður um að hafa skotið þrjá til bana og sært þrjá. Vísir/AP/Getty

Yfirvöld í Flórída hafa ákært liðþjálfa í sérsveitum Bandaríkjahers fyrir árás þar sem hann virðist hafa skotið á fólk af handahófi í keiluhöll í Illinois í gær. Þrír eru dánir og þrír særðir eftir árásina.

Duke Webb hefur verið ákærður fyrir þrjú morð og þrjár tilraunir til morðs.

Þeir sem dóu voru 73, 65 og 69 ára gamlir. Fjórtán ára drengur fékk skot í andlitið og sextán ára stúlka fékk skot í öxlina. Þar að auki er 62 ára maður í alvarlegu ástandi eftir að hann var skotinn margsinnis.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar, er ekki vitað til þess að Webb þekki nokkurn þeirra sem hann mun hafa skotið og er talið að árásin hafi verið af handahófi, eins og áður hefur komið fram.

Árásin fór fram í Don Carter Lanes keiluhöllinni í Rockford í Illinois. Keilubrautirnar voru lokaða vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar en veitingastaður þar inni var opinn. Webb er sagður hafa gengið þar inn á laugardaginn og hafið skothríð en um 25 manns voru á veitingastaðnum.

Einhverjir voru skotnir fyrir utan bygginguna.

Lögreglan segir að skjót viðbrögð lögregluþjóna hafi líklega bjargað mannslífum. Þegar lögregluþjóna bar að garði reyndi Webb að fela byssu sína en hann var handtekinn án átaka.

Ekki er vitað hvað Webb var að gera í Illinois, þar sem hann býr í Flórída. Þá liggur tilefni morðanna ekki fyrir heldur.

Á þessu ári hafa 35 manns verið myrtir í Rockford, þar sem um 170 þúsund manns búa. Það er met en næst hæsta talan er 31 og var það árið 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×