Hvorki Hvíta húsið nú Trump sjálfur hafa útskýrt af hverju forsetinn skrifaði óvænt undir frumvarpið sem hann hafði lýst sem skammarlegu og neitað að skrifa undir í viku.
Frumvarpið um neyðaraðstoðina og fjármögnun ríkisins var samþykkt á báðum deildum Bandaríkjaþings með stuðningi þingmanna beggja flokka en starfsmenn Trumps í Hvíta húsinu höfðu staðhæft við þingmenn að forsetinn studdi frumvarpið.
Trump kom ekki sjálfur að viðræðunum um gerð frumvarpsins, sem fór fram meðal þingmanna beggja flokka og Steve Mnuchin, fjármálaráðherra hans. Viðræðurnar tóku marga mánuði.
Forsetinn lýsti því þó óvænt yfir á þriðjudaginn að hann vildi ekki skrifa undir frumvarpið og sagði það vera skammarlegt.
Þingmenn Repúblikanaflokksins vörðu helginni í að reyna að sannfæra forsetann um að skrifa undir frumvarpið og virðist sem það hafi skilað árangri.
Eftir að hann skrifaði undir frumvarpið í nótt, svo það varð að lögum, gaf Trump út tilkynningu þar sem hann kvartaði áfram yfir því og sagðist ætla að senda nýja útgáfu frumvarps til þingsins og krefjast þess að ýmis fjárútlát yrðu dregin til baka. Áður hafrði hann kvartað yfir fjárútlátum til þróunaraðstoðar og alþjóðlegra verkefna.
Þeir liðir voru þó margir í hans eigin fjárlagafrumvarpsbeiðni sem Hvíta húsið gaf út fyrr á árinu.
Það er þó einungis tæpur mánuður eftir að forsetatíð Trumps og allar líkur eru á því að þingmenn muni hunsa þessar kröfur hans alfarið, miðað við heimildir fjölmiðla vestanhafs.
Til marks um það má vísa til ummæla Demókrata í dag og jafnvel í yfirlýsingu Mitch McConnell, forseta öldungadeildar Bandaríkjaþings, frá því í nótt. Þar hrósaði hann forsetanum fyrir að hafa skrifað undir frumvarpið en minntist ekki á kröfur hans.
Í frétt AP fréttaveitunnar segir að Trump hafi ekkert grætt á því að skrifa ekki undir frumvarpið. Það eina sem hann hafi áorkað sé að gera báðar fylkingar reiðar og gera Demókrötum auðveldara um að þrýsta á Repúblikana varðandi frekari fjárhagsaðstoð til Bandaríkjamanna, sem Repúblikanar vilja ekki gera.
Fulltrúadeild þingsins mun koma saman í dag og er búist við því að þingmenn muni greiða atkvæði til að koma frumvarpi um fjárveitingar til varnarmála fram hjá neitunarvaldi forsetans, eftir að hann neitaði að skrifa undir frumvarpið. Þá er búist við því að öldungadeildin greiði atkvæði á morgun.