Erlent

Fór sjálfur í verslunar­mið­stöð eftir að hafa beðið Svía að gera það ekki

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. AP

Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar fór í verslunarmiðstöðina Gallerian í miðborg Stokkhólms 20. desember síðastliðinn, tveimur dögum eftir að ríkisstjórn hans hvatti fólk til að forðast verslunarmiðstöðvar og hvers kyns mannmargar samkomur vegna faraldurs kórónuveiru.

Frá þessu greinir sænska dagblaðið Expressen og birtir myndir af Löfven í verslunarleiðangri. Haft er eftir Mikael Lindström upplýsingafulltrúa Löfven að forsætisráðherra hafi verið í verslunarmiðstöðinni í „vandlega skipulögðum erindagjörðum“ umræddan dag. Expressen greinir frá því að hann hafi jafnframt gert sér ferð í Gallerian tvisvar áður í desember.

Morgan Johansson dómsmálaráðherra Svía hefur einnig sætt gagnrýni eftir að hafa skellt sér á útsölur í Nova-verslanamiðstöðinni í Lundi á annan í jólum.

Löfven, sem er samflokksmaður dómsmálaráðherrans, hafði í aðdraganda jóla sagt að falla ætti frá útsölum þetta árið vegna kórónuveirufaraldursins. Löfven sagði jafnframt að Johansson hefði verið „óvarkár“ með verslunarferð sinni.


Tengdar fréttir

Nýja afbrigðið greindist í Svíþjóð

Nýtt afbrigði kórónuveirunnar, sem talið er meira smitandi og á rætur að rekja til Bretlands, hefur greinst í Svíþjóð. Einstaklingur smitaður af afbrigðinu kom til Suðurmannalands í Svíþjóð í vikunni fyrir jól, en hafði verið í sjálfskipaðri sóttkví frá komunni til landsins þar til hann greindist.

Svíar og Frakkar loka á Bretland

Svíþjóð og Frakkland hafa bæst í hóp þeirra Evrópuríkja sem hafa sett takmörk á eða bannað alfarið samgöngur frá Bretlandi vegna nýs afbrigðis kórónuveiru sem dreifst hefur um Bretland, og er talið meira smitandi en önnur afbrigði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×