Utanríkisráðherrar Íslands og Bandaríkjanna urðu ásáttir um að undirbúa samráð á sérfræðingastigi vegna áhrifa ferðabanns Bandaríkjastjórnar og efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins þegar þeir ræddu saman í síma í dag. Bandaríski utanríkisráðherrann lofaði aðgerðum íslenskra stjórnvalda gegn faraldrinum.
Tilefni símtals Guðlaugs Þórs Þórðarson, utanríkisráðherra, og Mikes Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var tímabundið bann sem Bandaríkjastjórn setti á ferðir ferðamanna af Schengen-svæðinu í síðustu viku.
Guðlaugur Þór lagði áherslu á mikilvægi þess að viðhalda farþegaflugi á milli landanna tveggja með hliðsjón af sérstakri stöðu Íslands mitt á milli Evrópu og Norður-Ameríku, að því er segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins vegna símtalsins. Þá ræddu þeir mikilvægi þess að tekist yrði á við efnahagslegar afleiðingar faraldursins, ekki síst fyrir millilandaflug.
„Utanríkisráðherra undirstrikaði áhrifin á flug Icelandair vestur um haf og þörfina á því að huga að stöðu mála þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir. Ráðherrarnir urðu ásáttir um að undirbúa samráð á sérfræðingastigi um þessi mál, hugsanlega í tengslum við efnahagssamráð ríkjanna í stærra samhengi,“ segir í tilkynningunni.
Upphaflega ætluðu Guðlaugur Þór og Pompeo að funda í Washington-borg á fimmtudag. Sá fundur var blásinn af vegna ferðabannsins.