„Ég verð nú bara að vera alveg hreinskilin með að þetta var mjög svekkjandi,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir í Sportinu í dag, nýjum íþróttaþætti Stöðvar 2 Sport. Ragnheiður og stöllur í Fram voru einum leik frá því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn í handbolta þegar allri handboltakeppni á Íslandi var frestað um óákveðinn tíma vegna kórónuveirunnar.
Ragnheiður ræddi við Henry Birgi Gunnarsson fyrir utan íþróttahús Fram í Safamýrinni í dag, þar sem hún er vön að verja deginum við æfingar og þjálfun yngri flokka. Innslagið má sjá neðst í fréttinni.
„Það er ekkert að frétta eins og er. Engin þjálfun og engar æfingar svo það er mjög lítið að gera. Þetta er mjög skrýtið ástand en við tökum þessu bara eins og þetta er,“ sagði Ragnheiður. Fram er fimm stigum á undan Val á toppi Olís-deildarinnar og sigur gegn Stjörnunni síðasta föstudagskvöld hefði tryggt liðinu deildarmeistaratitilinn:
„Það var stutt í mætingu og maður var búinn að peppa sig upp í leikinn og til í að spila. En við vonum það besta og reynum að vera jákvæðar, og vonum að við fáum að klára deildina og að það verði úrslitakeppni, sama hvernig hún verður. Þetta var mjög svekkjandi,“ sagði Ragnheiður. Hún segir Framkonur opnar fyrir ýmsum lausnum til að klára Íslandsmótið en hvað þætti henni um að efsta lið deildarinnar yrði einfaldlega krýnt Íslandsmeistari, án úrslitakeppni?
„Það væri mjög skrýtið. Ég veit ekki hvort að manni myndi líða eins og að maður ætti þetta verðskuldað. En maður sér á Norðurlöndunum að það er búið að aflýsa öllu, og þetta er bara mjög skrýtið ástand. Við treystum bara HSÍ og ÍSÍ til að finna niðurstöðu í þessu.“