Erlent

Biden vann stór­sigur í þremur ríkjum

Atli Ísleifsson skrifar
Joe Biden ávarpaði Demókrata frá heimili sínu í Wilmington.
Joe Biden ávarpaði Demókrata frá heimili sínu í Wilmington.

Joe Biden, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, vann stórsigur á Bernie Sanders í forkosningum Demókrataflokksins í þremur ríkjum í gær. Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að Biden verði forsetaefni Demókrata í forsetakosningunum í nóvember næstkomandi.

Forkosningar fóru fram í Flórída, Illinois og Arizona, en upphaflega stóð til að forkosningar færu einnig fram í Ohio, en ákveðið var að fresta þeim vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í sigurræðu sinni beindi Biden orðum sínum að sérstaklega til stuðningsmanna Sanders þar sem hann bað um stuðning þeirra.

Með um 300 manna forskot á Sanders

Þó að talningu sé ekki lokið í Flórída virðist Biden hafa fengið um 62 prósent atkvæða þar, en Sanders um 23 prósent.

Í Illinois virðist Biden hafa fengið um 59 prósent atkvæða, en Sanders 36 prósent og í Arizona virðist Biden hafa fengið rúmlega 42 prósent atkvæða, en Sanders um 30 prósent.

Í Flórída er barist um 219 landsfundarfulltrúa, í Illinois 155, og í Arizona 67.

Alls hefur Biden hlotið flest atkvæði í forkosningum eða forvali Demókrata í sextán af 21 ríki.

Eftir forkosningar næturinnar hefur Biden tryggt sér 1.119 landsfundarfulltrúa, en Sanders 815.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×