Skoðun

Lausnir á löngum bið­lista barna

Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Í svari frá velferðarsviði kom fram að í desember 2019 biðu um 750 börn eftir að hitta sérfræðinga hjá skólaþjónustu. Það ár bárust 2162 beiðnir til skólaþjónustu Reykjavíkurborgar vegna 1875 barna. Málum hefur fjölgað milli ára um 23%. Fjöldi barna sem biðu eftir fyrstu þjónustu voru 452 börn, þar af 297 eftir þjónustu sálfræðinga. Eftir talmeinafræðingi biðu 121 barn.

Annar hópur barna beið eftir meiri og frekari þjónustu og voru þau 307 talsins. Þessi börn voru fyrst á biðlista eftir fyrstu þjónustu en þar sem metið var að þau þyrftu frekari þjónustu fóru þau aftur á biðlista. Í millitíðinni má gera ráð fyrir að þau hafi fengið snemmtæka íhlutun og jafnvel einhverjar skimun á sínum vanda. Rúmlega helmingur beiðna til skólaþjónustu eru vegna einbeitingarerfiðleika (ADHD).

Ég hef lagt fram í borgarstjórn nokkrar tillögur sem lúta að lausnum vegna langra biðlista og sem miða að því að gera þjónustuna skilvirkari og faglegri. Á fundi borgarstjórnar 17. mars stóð til að leggja fram tillögu um að um að velferðarráð leiti eftir að formgera samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. 

Málum var öllum frestað nema einu á þessum fundi og mun ég því leggja þessa tillögu fram á næsta fundi borgarstjórnar.

Með samstarfi sérfræðinga skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar myndu biðlistar styttast og börnin fá fyrr þá þjónustu sem þau þarfnast. Aðrar tillögur Flokks fólksins sem lagðar hafa verið fram eru:

1. Að fjölga stöðugildum sálfræðinga

2. Að færa aðsetur sálfræðinga frá þjónustumiðstöðvum inn í skólana

3. Að börn skulu ávallt hafa biðlistalaust aðgengi að sérfræðingum

4. Að skólasálfræðingar heyri undir skóla- og frístundaráð.

Mikið álag er á sérfræðinga skólaþjónustunnar. Skortur er auk þess á úrræðum og bjargráðum fyrir tvítyngd börn í leik- og grunnskólum. Stöðugildi sálfræðinga í grunnskólum eru 15.60 á 15.000 börn sem þýðir gróflega að hver sálfræðingur/stöðugildi þjónustar 1000 börn. Dæmi eru um að einn sálfræðingur sinni þremur skólum. Í desember sl. lagði ég fram breytingatillögu við fjárhagsáætlun um að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs yrðu hækkaðar um 40,5 m.kr. til að ráða tvo sálfræðinga og einn talmeinafræðing til eins árs. Tillagan var felld.

Árið 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að hver skóli hefði sálfræðing a.m.k. í 40% starfshlutfalli með aðsetur í skólunum. Meirihlutinn í velferðarráði var á öðru máli og mat svo að „vænlegra til árangurs væri að halda áfram á þeirri braut að samþætta þjónustu sálfræðinga annarri þjónustu á vegum þjónustumiðstöðva í hverfum“ eins og sagði í kynningu sviðsins frá 17. ágúst 2018.

Til þess að barn geti notið þjónustu sálfræðings sem best er mikilvægt að sálfræðingurinn hafi aðsetur í skólanum. Hér má vísa í skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019 um rekstrarramma skóla. Í henni kom fram skýrt ákall um nærveru sálfræðinga í skólum m.a. til að létta á álagi kennara. Þjónustumiðstöðvar eru óþarfa milliliður í þessu tilliti og hamla aðgengi barna að sálfræðingum skóla. Þjónustumiðstöðvar mætti auk þess sameina.

Veita snemmtæka íhlutun á kostnað greininga

Skóla- og velferðaryfirvöld í borginni segja að með aukningu snemmtækrar íhlutunar sé minni þörf á greiningum og þar með aðkomu sálfræðinga. Snemmtæk íhlutun felur í sér að byrjað er að vinna strax með börnum sem eru ekki að fylgja jafnöldrum sínum í þroska. Í löndum sem við berum okkur saman við er minna um alls kyns greiningar en þar virðast börnum líða almennt betur eftir því sem kannanir sýna. Aukning á vanlíðan barna á Íslandi endurspeglast í niðurstöðum PISA og skýrslum landlæknisembættisins.

Þrátt fyrir að nú sé snemmtæk íhlutun meginreglan er biðlisti til sérfræðinga mjög langur. Ástæðan kann að vera að börn þurfa að bíða of lengi eftir sérfræðiaðstoð hvort heldur greiningum eða viðtölum. Margir foreldrar fara með með börn sín til sjálfstætt starfandi sérfræðinga en það er ekki á færi allra. Vandi sumra barna verður einfaldlega ekki ljós nema með fyrirlögn kvarða og prófana.

Börnin sem þola bið og þola ekki bið

Vissulega er reynt að forgangsraða í skólaþjónustunni og málum sem metin eru að þoli ekki bið er sinnt fyrr. Ef mál barns er metið þannig að það þoli ekki bið má telja fullvíst að vandinn hefur einhvern aðdraganda, jafnvel langan. En hvað með börnin sem sögð eru þola bið. Mál sem þola bið þurfa iðulega að bíða lengi. Í svari frá velferðarsviði segir að flest mál hafni í 3. flokki en það er flokkur mála sem þolir „bið“ samkvæmt flokkunarmati. Þegar barn hefur beðið lengi eftir þjónustu hefur vandi þess oft undið upp á sig og getur á einni svipstundu orðið bráður vandi sem ekki hefði orðið hefði barnið fengið fullnægjandi aðstoð á fyrri stigum.

Skóla- og velferðaryfirvöld borgarinnar tala um að skólaþjónusta sé samfelld, heildstæð og óháð staðsetningu. Í dag er þjónustan því miður fæst af þessu. Velta má upp þeirri spurningu hvort verið sé að framfylgja lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leik- og grunnskóla?

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.




Skoðun

Sjá meira


×