Enski boltinn

Útvarpsstöðvar í 30 löndum í Evrópu spiluðu Liverpool lagið á sama tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool þekkja það vel að syngja saman „You'll never walk alone“ lagið.
Stuðningsmenn Liverpool þekkja það vel að syngja saman „You'll never walk alone“ lagið. Getty/Catherine Ivill/

Liverpool lagið „You'll never walk alone“ er eitt frægasta stuðningsmannalag heims enda spilað fyrir hvern heimaleik hjá Liverpool og fleiri liða.

Í morgun klukkan 7.45 að íslenskum tíma þá spiluðu útvarpsstöðvar í 30 löndum í Evrópu lagið til að hvetja til samstöðu með öllum þeim sem standa í ströngu vegna kórónuveirunnar.

Hollenski plötusnúður að nafni Sander Hoogendoorn átti frumkvæðið að þessu uppátæki.

Stuðningsmenn Liverpool þekkja vel góð áhrif þess að syngja saman „You'll never walk alone“ á leikjum liðsins enda er hvergi meiri samstaða í stúkunni en einmitt á Anfield þegar þetta lag hljómar í hátalarkerfinu.

Lagið kom út árið 1963 og var flutt af Gerry & The Pacemakers. Knattspyrnustjórinn Bill Shankly átti síðan mikinn þátt í því að Liverpool tók það upp á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×