Fótbolti

Leikmenn á Íslandi hafa áhyggjur | Ástandið ekki gott áður en þessi faraldur fór af stað

Sindri Sverrisson skrifar

Arnar Sveinn Geirsson, forseti Leikmannasamtaka Íslands, segir ljóst að efnahagslegar afleiðingar kórónuveirunnar bíti íþróttafélög landsins sem hafi auk þess ekki verið í sérlega góðri stöðu áður en veiran breiddist út.

„Ástandið var kannski ekki sérstaklega gott áður en þessi faraldur fór af stað. Við vorum búin að heyra að sum félög væru í erfiðleikum með að greiða laun, og reksturinn hefur verið pínu erfiður það sem af er ári. Svo bætist þetta [kórónuveiran] ofan á þau vandamál sem voru fyrir. Það eru því augljóslega vandamál hjá félögunum, og kannski skiljanlega að einhverju leyti, þannig að leikmenn hafa vissar áhyggjur af því hvernig framhaldið verður,“ sagði Arnar Sveinn við Svövu Kristínu Grétarsdóttur í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.

„Það sem ég held að sé langmikilvægast er að menn séu hreinskilnir. Að félögin séu hreinskilin við leikmennina sína. Það sé ekki verið að fela eitthvað fyrir leikmönnum og segja að það sé allt í góðu ef svo er ekki. Bara taka opinskátt samtal við leikmennina og segja þeim hver staðan er, og þá standa menn líka eftir með mikið samstarfsfúsari leikmenn en ef þetta væri öfugt,“ sagði Arnar Sveinn, sem er leikmaður Breiðabliks í fótbolta. Hann er bjartsýnn á að Íslandsmótið í fótbolta fari fram en því var í nýliðinni viku frestað fram í miðjan maí.

„Ég held að það sé hægt að spila þetta mót, hvort sem það byrjar í maí, júní eða júlí. Það verður með skrýtnum hætti, og Íslandsmótið verður alltaf pínu skrýtið úr því sem komið er. Við þurfum bara að taka því. Það er ekkert við þessu að gera. Þetta er ekki í höndum neins, það er enginn að gera neitt rangt í þessum aðstæðum. Við þurfum bara að vera hreinskilin, tala saman, finna lausnir á þessu saman og komast í gegnum þetta saman.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×