Sport

Kórónuveiran gæti komið í veg fyrir félagaskipti Werner til Englands

Anton Ingi Leifsson skrifar
Timo Werner gæti lent í vandræðum með að komast til Englands í sumar.
Timo Werner gæti lent í vandræðum með að komast til Englands í sumar. vísir/getty

Timo Werner hefur verið orðaður við mörg félög á Englandi síðustu vikur og mánuði en nú gæti farið svo að hann verði áfram hjá RB Leipzig vegna kórónuveirunnar sem nú ríður yfir.

Þetta segir yfirmaður knattspyrnumála hjá Leipzig, Markus Krosche. Liverpool, Chelsea og Man. United voru öll sögð áhugasöm um þennan 24 ára gamla leikmann.

„Það er klárt að það var áhugi á Timo frá öðrum félögum eftir frábæra frammistöðu hans en England er í sömu vandræðum og við. Þetta hefur ekki bara áhrif á eina deild heldur allan heiminn. Við getum ekki vitað hvernig þetta verður eftir sex mánuði,“ sagði Markus.

Þegar hann var spurður hvort að Werner gæti verið áfram hjá Leipzig á næsta tímabili svaraði hann stuttorður: „Allt er mögulegt,“ áður en hann hélt svo áfram.

„Við vitum ekki hvað mun gerast á félagaskiptamarkaðnum. Við getum lítið spáð í spilin. Við vitum ekki hver úrræðin verða og hvaða möguleika liðin munu hafa.“

Leipzig er í 3. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar og eru komnir í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×