Á annað hundrað starfsmanna Bláa lónsins hefur verið sagt upp vegna þeirrar stöðu sem komin er upp vegna faraldurs kórónuveirunnar en öllum starfsstöðvum Bláa Lónsins hefur verið lokað til loka næsta mánaðar hið minnsta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bláa Lóninu.
164 af 764 starfsmönnum hefur verið sagt upp og er það liður í aðgerðum til að bregðast við „fordæmalausum aðstæðum og gjörbreyttu rekstrarumhverfi fyrirtækisins,“ eins og segir í tilkynningunni.
Áætlað er að rúmlega 400 þeirra starfsmanna sem eftir standa verði boðið að nýta sér tímabundin úrræði um hlutastörf enda verði starfsemi fyrirtækisins í algjöru lágmarki á næstu vikum.
Í tilkynningunni segir að með aðgerðunum verði því freistað að verja störf þeirra 600 sem starfa munu hjá fyrirtækinu eftir aðgerðirnar.