Innlent

Telja að kviknað hafi í fjöl­býlis­húsi í Stokk­hólmi vegna gá­leysis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Eldurinn kviknaði í Järfälla, norður af Stokkhólmi, í nótt.
Eldurinn kviknaði í Järfälla, norður af Stokkhólmi, í nótt. EPA/FREDRIK PERSSON

Níu hæða fjölbýlishús brann í nótt í Järfälla, norður af Stokkhólmi. Slökkviliði barst tilkynning laust eftir miðnætti að staðartíma um brunann. Enn loga glæður í þaki hússins en slökkvilið hefur náð tökum á eldinum. Frá þessu er greint á vef sænska ríkisútvarpsins.

Að sögn Tommy Wållberg, stjórnanda slökkviliðs á vettvangi, hefur slökkviliðið náð tökum á eldinum. „Það eru ennþá glóðir í þakinu en það er ekki lengur nein hætta á að eldurinn dreifi úr sér. Það er flókið að berjast við eldinn því hann er svo hátt uppi og þar af leiðandi erfitt að rífa niður þakið og svo framvegis,“ sagði hann í samtali við fréttamenn klukkan 6:20 í morgun.

View this post on Instagram

Flerfamiljshus brinner i Järfälla

A post shared by Brottsplats Stockholm (@brottsplats_stockholm) on

Eldurinn logaði í alla nótt og var hann að mestu í þakinu. Því var byrjað á að rýma aðeins íbúðir á efstu hæð en eftir því sem leið á nóttina var ákveðið að rýma húsið allt. Í húsinu búa 136.

Fimmtíu slökkviliðsmenn voru á staðnum í nótt og sjúkrabílar tiltækir. Enn er ekki vitað hvort einhver hafi þurft að fá aðhlynningu á vettvangi.

Lögreglan hefur hafið rannsókn á tildrögum eldsins en lögreglan telur að hann hafi kviknað vegna gáleysis. „Ég get ekki útskýrt það nákvæmlega en við teljum að eldurinn hafi kviknað vegna gáleysis,“ sagði Andreas Dahlin, lögreglumaður á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×