Enski boltinn

Roy Keane „að kenna“ að Henderson skipti ekki um treyju við Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jordan Henderson fagnar sigri Liverpool á Barcelona í fyrravor.
Jordan Henderson fagnar sigri Liverpool á Barcelona í fyrravor. Getty/Alex Livesey

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, hefur í fyrsta sinn rætt þá upplifun sína að mæta Lionel Messi í fyrsta sinn á fótboltavellinum.

Jordan Henderson og félagar í Liverpool slógu Barcelona út úr Meistaradeildinni í fyrra efrir 4-0 endurkomu í seinni leiknum á Anfield. Barcelona hafði unnið fyrri leikinn 3-0 á Spáni og flestir voru búnir að afskrifa Liverpool liðið.

Jordan Henderson var ekki í byrjunarliðinu í fyrri leiknum á Nývangi en kom inn á sem varamaður þegar Naby Keita meiddist í fyrri hálfleiknum.

Jordan Henderson var þarna að spila sinn fyrsta leik á móti Lionel Messi og hann gat ekki komið í veg fyrir það að Messi skoraði tvívegis í leiknum.

„Ég kom snemma inn á völlinn þegar Naby Keita meiddist. Þetta var í fyrsta sinn sem ég var á sama velli og Lionel Messi,“ sagði Jordan Henderson við Daily Mail.

„Þú hugsar með sjálfum þér. Guð minn góður, þetta er hann. Það er samt engin spurning um að hann spilar leikinn öðruvísi en þú sérð í sjónvarpinu. Hann er svo fljótur,“ sagði Henderson.

„Þegar ég hugsa til baka til aukaspyrnunnar sem hann skoraði úr. Ég trúi þvi ekki enn að hann hafi skorað. Ég hélt hann ætlaði að taka hana stutt,“ sagði Henderson en Lionel Messi var í margra augum búinn að gera út um einvígið með tveimur mörkum í 3-0 sigri.

Blaðamaður Daily Mail spurði Jordan Henderson síðan út í keppnistreyju Lionel Messi

„Hugsaði ég um að biðja um treyjuna hans? Nei, ég hef aldrei gert slíkt,“ sagði Henderson og hélt áfram:

„Roy Keane sagði mér það þegar ég var hjá Sunderland að ef þú biður einhvern um treyjuna hans þá lítur þú út fyrir að vera fullur af aðdáun,“ sagði Henderson.

Roy Keane var knattspyrnustjóri Sunderland á árunum 2006 til 2008 og var það hans fyrsta stjórastarf. Skórnir voru þá nýkomnir upp á hillu eftir hálft tímabil með Celtic. Jordan Henderson var að koma upp í aðalliði á síðasta ári Keane hjá félaginu.

„Það fór því þannig að ég fór heim með treyjuna hans Luis Suárez. Luis er góður gæi og hann gaf mér hana enda spiluðum við saman hjá Liverpool. Ég veit samt ekki hvað hann gerði við mína treyju,“ sagði Henderson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×