Viðskipti innlent

Versti ársfjórðungurinn frá 2009

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá áramótum og til og með 31. mars, lækkaði úrvalsvísitalan um 17,6 prósent. Það er mesta lækkunin sem átt hefur sér stað á einum ársfjórðungi frá fyrsta fjórðungi ársins 2009.
Frá áramótum og til og með 31. mars, lækkaði úrvalsvísitalan um 17,6 prósent. Það er mesta lækkunin sem átt hefur sér stað á einum ársfjórðungi frá fyrsta fjórðungi ársins 2009. Vísir/Vilhelm

Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um tæp átján prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins. Ársfjórðungurinn var sá versti í ellefu ár. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og segir þar að mikil óvissa um áhrif kórónuveirunnar á heimshagkerfið skeki áfram hlutabréfamarkaði heimsins og greinandi segir alls óljóst að botninum sé náð.

Frá áramótum og til og með 31. mars, lækkaði úrvalsvísitalan um 17,6 prósent. Það er mesta lækkunin sem átt hefur sér stað á einum ársfjórðungi frá fyrsta fjórðungi ársins 2009. Þá féll hún um allt að 36 prósent í miðri fjármálakreppu.

Fréttablaðið ræddi við Arnar Inga Jónsson, greinanda í hagfræðideild Landsbankans, og sagði hann fullkomlega ótímabært að segja botninum náð og að óvissan væri enn mikil. Hann sagði ómögulegt að segja til um hvenær óvissutímunum lýkur. Hlutabréfamarkaðir þurfi upplýsingar en þær séu ekki til staðar í dag.

Til að mynda sé enn ekki ljóst hve stórir björgunarpakkar stjórnvalda hér á landi og víðar verða í rauninni.

„Aðalmálið er að stjórnvöld og Seðlabankinn hafa lýst yfir vilja til þess að styðja við og létta undir með fyrirtækjum landsins á þessum óvissutímum. Það eru mikilvæg skilaboð,“ sagði Arnar í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×