Tvö umferðarslys urðu á Norðurlandi upp úr hádegi í dag. Annað slysið varð um klukkan 12 þegar kerra losnaði aftan úr bíl með þeim afleiðingum að hún skall á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Hitt slysið varð um korter í eitt þegar fugl flaug fyrir bifhjólamann sem reyndi að forða árekstri og datt af hjólinu segir Kolbrún Jónsdóttir, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Tveir voru í bílnum sem skall á kerruna og ökumaður bílsins sem hana dró var ein í bílnum. Ökumaður og farþegi aftari bílsins voru fluttir á slysadeild en ökumanni hins bílsins varð ekki meint af. Slysið varð við Einarsstaði við hringveginn rétt fyrir utan Akureyri.
Mótorhjólamaðurinn var einnig fluttur á slysadeild. Ekki er vitað um líðan þeirra að svo stöddu.
Fréttin hefur verið leiðrétt. Áður sagði að kerran hafi skollið á bíl fyrir aftan og að slysið hafi verið í Þingeyjarsveit.