Það verður farið um víðan völl í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni sem hefst í beinni útsendingu nú klukkan 6:50. Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar ríður á vaðið og ræðir tíma uppbyggingar sem hún telur nú ganga í garð.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn mætir einnig í hljóðverið og fer yfir það sem breytist nú í dag, 4. maí, þegar fyrsta stig afléttra veirutakmarkana tekur gildi.
Þá lítur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra við og að því loknu verður fyrsta Perla vikunnar, nýtt vikulegt innslag í Bítinu, tekin fyrir. Í Perlu vikunnar verður einblínt á innlendan áfangastað sem landsmenn gætu heimsótt á ferðalögum sínum í sumar en í þessari viku segir Helgi Jóhannesson, leiðsögumaður og lögmaður, frá Glym, fossinum fagra í Hvalfirði.
Hafþór Júlíus Björnsson kraftajötunn kíkir einnig í heimsókn og þá verður farið yfir íþróttir í kjölfar kórónuveirufaraldurs. Berglind Björg Þorvaldsdóttir leikmaður AC Milan á Ítalíu ræðir svo stöðuna þar í landi og tilslakanir á útgöngubanni.
Líkt og áður segir hefst Bítið klukkan 6:50 og stendur til klukkan 10. Hægt er að fylgjast með þættinum á Bylgjunni og sömuleiðis sjónvarpsútsendingu úr útvarpsstúdíóinu hér á Vísi og á rásinni Stöð 2 Vísi í sjónvarpi. Með umsjón þáttarins fara Gunnlaugur Helgason og Kjartan Atli Kjartansson en sá síðarnefndi leysir Heimi Karlsson af í dag.
Uppfært: Hér að neðan má sjá Bítið í morgun í heild sinni.