Íslenski boltinn

FH og Þróttur R. fá styrk frá UEFA í gegnum KSÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingar fagna bikarsigri á KR í undanúrslitum Mjólkurbikarsins síðasta sumar.
FH-ingar fagna bikarsigri á KR í undanúrslitum Mjólkurbikarsins síðasta sumar. Vísir/Bára

Knattspyrnusamband Íslands tilkynnti i dag að tvö íslensk félög, Þróttur Reykjvík og FH, hafi fengið styrk vegna verkefna tengjast flóttafólki og hælisleitendum.

KSÍ auglýsti í desember eftir umsóknum um styrki vegna verkefna sem tengjast flóttafólki og hælisleitendum. Um er að ræða styrk úr sjóði sem Knattspyrnusamband Evrópu setti á laggirnar og aðildarsamböndum UEFA býðst að sækja um styrk úr vegna tilgreindra verkefna.

Knattspyrnusambönd í Evrópu eru þannig hvött til að starfa með samtökum sem starfa að málefnum flóttamanna og hælisleitenda í sínum löndum og stofna til verkefna sem styðja við samfélagslega aðlögun þeirra.

Hægt var að sækja um styrk fyrir ný verkefni, eða verkefni sem þegar eru hafin og gat upphæð styrksins numið allt að 50.000 evrum, eða tæpum sjö milljónum króna. Valnefnd UEFA, sem skipuð er fulltrúum UEFA og ýmsum sérfræðingum í málefnum flóttafólks og hælisleitenda, fór yfir umsóknirnar og valdi sex verkefni sem hljóta styrk á árinu 2020. Umsóknir til UEFA komu frá 16 aðildarsamböndum.

Alls barst tæplega tugur umsókna til KSÍ vegna innlendra verkefna og var ákveðið að sækja um til UEFA vegna verkefna á vegum FH og Þróttar R. sem ganga út á að bjóða hælisleitendum og flóttafólki á knattspyrnuæfingar í hverri viku undir leiðsögn menntaðra þjálfara og á aðra viðburði á vegum félaganna.

Markmiðið er að nota knattspyrnustarfið og aðra starfsemi félaganna til að styðja við aðlögun flóttafólks og hælisleitenda að íslensku samfélagi.

Skemmst er frá því að segja að verkefni FH og Þróttar R. eru á meðal þeirra verkefna sem urðu fyrir valinu hjá valnefnd UEFA. Verkefnin, sem eru opin öllum aldurshópum og báðum kynjum, munu hefjast í sumar og standa fram eftir hausti og vonast bæði félög eftir því að verkefnin verði árleg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×