Fjórir karlmenn hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 22. maí á grundvelli almannahagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á fíkniefnamáli.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.
Mennirnir voru handteknir í aðgerðum lögreglunnar í og við Hvalfjarðargöng í lok febrúar, en lagt hefur verið hald á töluvert magn af fíkniefnum í tengslum við málið.
Að því er segir í tilkynningu lögreglu miðar rannsókn málsins vel.
Upphaflega voru fimm handteknir í aðgerð lögreglu við Hvalfjarðargöng í febrúar. Aðgerðin var viðamikil en að henni komu, auk lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Vesturlandi og sérsveit ríkislögreglustjóra.
Fram kom í umfjöllun Vísis í byrjun mars að Jaroslava Davidsson, ekkja Ásgeirs Davíðssonar - Geira á Goldfinger, væri ein þeirra sem handtekin voru en um væri að ræða mál þar sem grunur léki á framleiðslu á amfetamíni hér á landi.
Hin handteknu voru í fyrstu úrskurðuð í tveggja vikna gæsluvarðhald. Um miðjan mars var sagt frá því á Vísi að Jarslövu hefði verið sleppt úr haldi en karlmennirnir fjórir hefðu verið úrskurðaðir í áframhaldandi varðhald.