Fótbolti

Segir Sancho ekki hafa náð sér á strik eftir fjaðrafokið í kringum Man. United í sumar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sancho hefur átt erfitt uppdráttar á yfirstandandi leiktíð.
Sancho hefur átt erfitt uppdráttar á yfirstandandi leiktíð. Alexandre Simoes/Borussia Dortmund

Hans-Joachim Watzke, framkvæmdastjóri Dortmund, trúir því að skýringin á slöku gengi Sancho að undanförnu sé misheppnuðu förinni til Manchester United að kenna.

Jadon Sancho var talinn efstur á óskalista Man. United í sumar og segir Watzke að Sancho hafi nú þegar verið tilbúinn í skiptin. Þau hafi hins vegar runnið í sandinn eftir að Dortmund óskaði eftir 108 milljónum punda fyrir Sancho.

„Jadon hafði líklega undirbúið sig undir einhver skipti. Ég held að hann hafi allavega hugsað um það en hann hefur lagt mikið að sér á undanförnum vikum,“ sagði Watzke.

„Hann hafði yfirleitt ekki hugsað um hvert boltinn ætti að fara næst en núna er hann byrjaður á því. Því meira sem þú reynir að búa til - því erfiðara verður þetta.“

Sancho hefur átt erfitt uppdráttar frá því í sumar en var þó á skotskónum gegn Wolfsburg í gær. Hann fór á kostum á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði sautján mörk og lagði upp önnur sautján.

„Ég held að honum þurfi að ganga vel tvo eða þrjá leiki í röð þá mun þetta snúast aftur við hjá honum. Hann er einn af okkar efnilegustu leikmönnum enn þá,“ sagði Watzke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×