Enski boltinn

Enski boltinn rúllar á­­fram í út­­göngu­banni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Liverpool og WBA geta haldið áfram að spila þrátt fyrir útgöngubann, rétt eins og aðrir leikmenn Úrvalsdeildarinnar.
Leikmenn Liverpool og WBA geta haldið áfram að spila þrátt fyrir útgöngubann, rétt eins og aðrir leikmenn Úrvalsdeildarinnar. Andrew Powell/Liverpool FC

Enska úrvalsdeildin getur haldið áfram að rúlla þrátt fyrir að Boris Johnson, forsætisráðherra Englands, hafi í kvöld tilkynnt um að útgöngubann væri í gildi á Englandi frá og með miðnætti.

Boris Johnson tilkynnti í kvöld um útgöngubann vegna kórónuveirufaraldursins í Englandi. Í ávarpi sem hann flutti í kvöld sagði hann útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar, sem herjað hefur á Bretlandseyjar og er talið 50 til 70 prósent meira smitandi en flest önnur afbrigði, vera áhyggjuefni.

Þetta mun þó ekki hafa áhrif á atvinnuíþróttafólk en bæði þau sem stunda íþróttir innandyra sem og utandyra geta haldið áfram æfingum og keppni. Leikir munu þó áfram fara fram án þess að áhorfendur séu viðstaddir.

Mikið er um fótbolta á næstunni. Á morgun og miðvikudaginn fara fram undanúrslitaleikir í enska deildarbikarnum og um næstu helgi fer þriðja umferðin í enska bikarnum fram. Enska úrvalsdeild kvenna sem og ruðningsleikir svo eitthvað sé nefnt eiga einnig að fara fram í vikunni og er stefnt á að spila alla þá leiki, þrátt fyrir nýjustu tíðindi.

Fjórum leikjum í ensku úrvalsdeildinni hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita hjá liðum deildarinnar á leiktíðinni. Samtals hefur 52 leikjum verið frestað í deildarkeppnum á Englandi vegna veirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×