Lífið

Var hústökumaður í yfirgefnu klaustri á Suður-Spáni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Halli Hansen lifir sannarlega lífinu.
Halli Hansen lifir sannarlega lífinu.

Halli Hansen hefur setið í fangelsi, verið heimilislaus, ferðast um heiminn án farangurs og margt fleira sem þessi litskrúðugi karakter hefur prófað. Halli er nýjasti gestur Sölva Tryggvasonar í hlaðvarpi hans.

Í fyrra ákvað hann að leggja land undir fót og fór til meira en tuttugu landa.

„Ég var bara einn að ferðast á mótorhjólinu mínu og þurfti að vera mikið í trú og trausti, af því að ég vildi leyfa þessu að vera í flæði. Sums staðar talaði ég ekki tungumálið, en á öllum stöðunum var ég að æfa mig á því að finnast ég vera heima hjá mér. Þetta ferðalag var í raun verkleg æfing í að ákveða að heima væri hvar sem ég er hverju sinni. Í stað þess að hugsa mig sem gest á hverjum stað, hugsaði ég með mér að ég væri hluti af heildinni og að ég væri ekkert minna heima en þegar ég er á Íslandi. Það er frábært að geta liðið eins og maður sé í öryggi heimilisins hvar sem maður er.“

Halli fer í þættinum meðal annars yfir það þegar hann bjó allslaus í yfirgefnu munkaklaustri á Spáni og þurfti í fyrsta sinn að borða upp úr ruslatunnu til að svelta ekki.

Í yfirgefnu klaustri á Suður-Spáni

„Ég átti ekki neinn pening og var hústökumaður í yfirgefnu klaustri á Suður-Spáni. Ég var búinn að vera án matar lengi þegar ég varð að gera eitthvað. Þá fór ég yfir það í huganum hvort ég væri maður sem myndi ræna fólk, en fann að það samræmdist ekki gildum mínum. Ég vildi ekki stela eða betla og komst að því að til að taka ábyrgð á sjálfum mér yrði ég líklega að borða upp úr ruslatunnu. Ég man vel þegar ég gekk að fyrstu tunnunni, lyktin sem gaus upp og flugurnar í kring og ég endaði á að labba í burtu og lagði ekki í það. Daginn eftir gerði ég aðra tilraun og guggnaði aftur og það var ekki fyrr en ég hugsaði um allt fólkið sem borðar og lifir á ruslahaugum alla ævi úti um allan heim að ég áttaði mig á því að ég væri ekki betri en mínir minnstu bræður og systur. Það gaf mér styrkinn til að brjóta odd af oflæti mínu og týna myglað brauð upp úr ruslinu og borða það svo loksins. Það var ógeðslegt, en eftir að þetta skref hafði verið stigið var ég ánægður með að hafa gert þetta.”

Halli segir að það hafi nánast verið eins og lífið hafi vakað yfir sér eftir að hann ákvað að taka þetta skref.

„Þetta var svona „me vs. life” augnablik, en í framhaldi af þessu var eins og það væri einhver að vaka yfir mér. Þá gerðist það ítrekað að ég var kannski að labba í einhverjum garði og þá sá ég poka með eins dags gömlu brauði eða öðru sem gat dugað mér sem fæða í nokkra daga. Ég upplifði þetta eins og ákveðinn hjalla sem ég varð að fara yfir og það gerðist eitthvað í kjölfarið. Við eigum öll persónulegt samband við lífið sjálft og gerðist eitthvað í mínu sambandi við lífið.”

Halli hefur undanfarin ár unnið við ferðaþjónustu og í kvikmyndagerð hérlendis og kvartar ekki þó að árið 2020 hafi verið erfitt í þessum geirum vegna Covid faraldursins. Í þættinum fara Halli og Sölvi yfir reynslu þessa magnaða manns, hvað hann hefur lært á sínu ferðalagi, hvað framtíðin ber í skauti sér og margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×