Á örfáum árum hefur Anita Hirlekar orðið ein af skærustu stjörnum íslenskrar fatahönnunar. Hönnun Anitu einkennist af sterkum og áhrifaríkum litasamsetningum, bróderuðum flíkum og handmáluðum mynstrum.
„Augun fara beint að litasamsetningum og áferðum og það er oftast það sem ég pikka upp úr hlutum,“ segir Anita um innblásturinn, sem kemur meðal annar úr myndlist.
Í framhaldinu þróar hún hugmyndirnar áfram með frekari rannsóknarvinnu. „Svo er það þessi textíltækni sem heillar mig, útsaumurinn og þessar aldagömlu hefðir. Til dæmis þæfing og gera eitthvað nýtt og skapa eitthvað nýtt og nútímalegt með þessum gömlu hefðum.“
Mikil vinna við hverja flík
Anita ræddi hugmyndavinnu sína og hönnunarferlið í nýjasta myndbandinu frá verkefninu Á bak við vöruna. Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan.
„Stundum eru hugmyndirnar rosalega stórar og miklar þannig að það þarf langan tíma. Oftast tekur þetta upp í nokkur ár að þróa eina flík af því að það er mikill tími sem fer í bæði sníðagerðina og munstrið.“
Nýjasta lína Anitu var unnin og framleidd frá upphafi til enda innan landsteinanna og er fáanleg í Kiosk. Anita segir að það séu forréttindi að starfa sem fatahönnuður á Íslandi þó að það séu auðvitað einhverjar áskoranir sem því fylgja.
Verkefnið Á bak við við vöruna er röð örmyndbanda í heimildarmyndaformi frá Blóð stúdíó. Í þáttunum er skyggnst inn í heim íslenskra frumkvöðla og hönnuða sem starfrækja rekstur sinn í skapandi grósku Miðborgarinnar. Íslensk hönnun er ungt fag í stöðugum vexti og henni fylgir gríðarleg tækifæri í atvinnu- og verðmætasköpun. Allir þættirnir eru sýndir hér á Vísi.
Markmið myndbandanna er að auka sýnileika fagsins og draga fram raunhæfa mynd af einstaklingunum sem þar standa á bak við og hvernig vörur þeirra verða til - allt frá hugmynd, yfir að söluvænni vöru í verslun. Með því að auka þennan sýnileika og samtímis fræða áhorfandann er verið að virkja hann sem mögulegan neytenda og þar með stuðla að aukinni sjálfbærni hönnunar og að uppvexti þess frumkvöðlastarfs innanlands.