Handbolti

Alexander fékk ekki heilahristing en óvíst hvort hann verði með á sunnudaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Petersson lék aðeins í nokkrar mínútur gegn Portúgal á miðvikudaginn áður en hann var nánast laminn út úr leiknum.
Alexander Petersson lék aðeins í nokkrar mínútur gegn Portúgal á miðvikudaginn áður en hann var nánast laminn út úr leiknum. epa/ANDREAS HILLERGREN

Ekki liggur enn fyrir hvort Alexander Petersson geti leikið með íslenska handboltalandsliðinu gegn því portúgalska á Ásvöllum í undankeppni EM 2022 á sunnudaginn.

Alexander fékk tvö höfuðhögg í byrjun leiksins gegn Portúgal í fyrradag og tók ekki meiri þátt í leiknum eftir það. Seinna brotið var sérstaklega ljótt og sá brotlegi, Joao Ferraz, var stálheppinn að sleppa við rautt spjald. Portúgal vann leikinn, 26-24.

Gunnar Magnússon, aðstoðarþjálfari íslenska liðsins, segir ekki ljóst hvort Alexander geti leikið á sunnudaginn.

„Það verður að skoða það þegar nær dregur. Hann er eitthvað aðeins skárri en það er of snemmt að segja til um það ennþá,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi í dag.

„Hann er ekki brotinn og fékk ekki heilahristing,“ bætti Gunnar við.

Íslenska liðið kom til Íslands í gærkvöldi og æfir seinna í dag.

„Alexander verður með sjúkraþjálfara og prófar sig áfram, hvað hann getur gert,“ sagði Gunnar.

Hann sagðist vona að Alexander yrði með á sunnudaginn en sagði að það væri ómögulegt að segja neitt til um það á þessari stundu.

Leikur Íslands og Portúgals hefst klukkan 16:00 á sunnudaginn og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×