Björgvin Páll og Karen Einarsdóttir kona hans eignuðust sitt fjórða í lok síðasta árs og hann gaf því ekki kost á sér í ferðina til Portúgals í byrjun þessa árs. Hann stóð hins vegar í marki Íslands í byrjun annars leiksins við Portúgal, á Ásvöllum í gær, og er einn þriggja markvarða í 20 manna hópi Íslands sem kemur sér til Kaíró í dag.
Í samtali við handboltamiðilinn handbolti.is kveðst Björgvin Páll fullur eftirvæntingar að fara á HM en það hafi þó „togað í hann“ að vera frekar heima.
„Mér fannst bara ekki vera í boði að fara með landsliðinu til Portúgal í síðustu viku. Konan var nýbúin að fæða barn auk þess sem veikindi voru fyrir á heimilinu. Staðan er betri núna og ég er klár í bátana,“ segir Björgvin Páll við handbolti.is.
„Það togaði aðeins í mig að vera heima. Ég er bara þakklátur öllum, bæði fyrir að fá frí frá leiknum ytra á miðvikudaginn var og eins fjölskyldunni fyrir að styðja mig til þess að fara með strákunum til Egyptalands á HM,” segir Björgvin Páll.
Vantar upp á leikform en 200 landsleikir hjálpa til
Viktor Gísli Hallgrímsson var utan hóps í gær en Ágúst Elí Björgvinsson lék báða leikina við Portúgal, sem voru í undankeppni EM þar sem Ísland stendur nú afar vel að vígi. Óvíst er hvaða tveir markmenn verða í 16 manna hópnum sem mætir svo Portúgal í þriðja sinn, í fyrsta leik á HM á fimmtudagskvöld.
Leikurinn í gær var sá fyrsti hjá Björgvini síðan með Haukum í byrjun október, þegar íþróttastarf á Íslandi var stöðvað vegna kórónuveirufaraldursins. Björgvin viðurkennir að það vanti því upp á leikformið en æfingar hafa þó verið leyfðar án takmarkana síðasta mánuðinn. Hann vill þó ekki bara spila heldur líka miðla áfram sinni miklu reynslu.
„Mig vantar eitthvað upp á leikformið. Ég hef hinsvegar leikið millljón leiki og yfir 200 landsleiki sem ég reikna með að skili sér í einhverri reynslu. En vissulega veit ég ekki hver staðan er fyrr en á reynir,“ segir Björgvin Páll á handbolti.is.