Handbolti

Erlingur ætti að pakka í tösku

Sindri Sverrisson skrifar
Erlingur Richardsson hefur stýrt Hollandi frá árinu 2017 og framlengdi samning sinn nýverið til ársins 2022.
Erlingur Richardsson hefur stýrt Hollandi frá árinu 2017 og framlengdi samning sinn nýverið til ársins 2022. EPA/OLE MARTIN WOLD

Það gæti vel farið svo að Ísland muni eiga flesta þjálfara á HM í handbolta sem hefst í Egyptalandi í kvöld. Erlingur Richardsson gæti orðið sá fimmti sem þjálfari hollenska landsliðsins.

Spánn og Ísland eiga fjóra þjálfara hvort á mótinu. Guðmundur Guðmundsson er með Ísland, Alfreð Gíslason með Þýskaland, Dagur Sigurðsson með Japan og Halldór Jóhann Sigfússon með Barein. Erlingur gæti bæst við þann hóp vegna þess að hann stýrði Hollandi til 17. sætis á EM í fyrra.

Eftir að Norður-Makedónía og Sviss voru kölluð inn sem varaþjóðir í gær, vegna fjölda kórónuveirusmita hjá Tékklandi og Bandaríkjunum, eru Hollendingar nú í startholunum sem næsta varaþjóð. Miðað við það að hópsmit kom upp hjá Grænhöfðaeyjum, og að lykilmaður og þjálfari brasilíska landsliðsins greindust með smit, getur enn vel farið svo að Erlingur og hans menn fái boð um að fljúga hið snarasta til Egyptalands.

Gerðu flott jafntefli við Slóvena og eru viðbúnir

„Við erum búin að láta IHF vita að við þiggjum boðið ef það kemur. Leikmennirnir vita af þessu. Þegar við fáum skilaboðin frá IHF þá fer allt í gang,“ sagði Monique Tijsterman hjá hollenska handknattleikssambandinu, við hollenska ríkismiðilinn NOS.

Varaþjóðalisti alþjóða handknattleikssambandsins miðast við það hvaða þjóðir voru næst því að komast á HM í þeirri álfu sem ríkjandi heimsmeistarar, Danir, tilheyra. Norður-Makedónía og Sviss komust því á HM sem liðin í 15. og 16. sæti á síðasta EM, þar sem Holland varð í 17. sæti.

Hollendingar náðu afar góðum úrslitum á sunnudaginn þegar þeir gerðu 27-27 jafntefli við Slóveníu á útivelli í undankeppni EM, eftir að hafa steinlegið gegn Slóvenum á heimavelli, 34-23. Þeir hafa því æft og spilað saman undanfarið og eru tilbúnir að mæta á HM.


Tengdar fréttir

Hópsmit hjá andstæðingum Alfreðs á HM

Sjö leikmenn karlalandsliðs Grænhöfðaeyja í handbolta eru með kórónuveiruna. Liðið er á leið á HM í Egyptalandi þar sem það er í riðli með strákunum hans Alfreðs Gíslasonar í þýska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×