Handbolti

„Var gamall og reynslumikill leikmaður en núna er ég ungur, óreyndur og vitlaus þjálfari“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson hefur farið vel af stað á þjálfaraferlinum.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur farið vel af stað á þjálfaraferlinum. vísir/sigurjón

Guðjón Valur Sigurðsson nýtur sín vel í þjálfarahlutverkinu en segir að hann eigi enn margt eftir ólært á þeim vettvangi.

Guðjón Valur lagði skóna á hilluna síðasta vor og tók í kjölfarið við þýska B-deildarliðinu Gummersbach. Hann þekkti vel til þar á bæ eftir að hafa leikið með liðinu á árunum 2005-08.

„Ég er eiginlega enn að venjast hlutverkinu. Strax í sumar þegar við vorum að spila æfingaleiki og það voru læti og hasar sagði ég við liðið mitt að ég öfundaði þá að því að vera að spila. Þetta venst ágætlega en þetta eru fullt af nýjum hlutum og veggjum sem maður rekur sig á,“ sagði Guðjón Valur í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum.

Klippa: Sportpakkinn - Viðtal við Guðjón Valur

Landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi segir að leiðin yfir í þjálfun sé krefjandi en jafnframt skemmtileg.

„Það er ekkert auðvelt. Ég var gamall og reynslumikill leikmaður en núna er ég ungur, óreyndur og vitlaus þjálfari,“ sagði Guðjón Valur og hló. „Erfitt og ekki erfitt, þetta var meðvituð ákvörðun hjá mér. Það neyddi mig enginn í þetta. Þetta var eitthvað sem ég hafði áhuga á og vildi gera. Ég vissi það fyrirfram að það væri hellingur sem ég þyrfti að bæta mig í.“

Leikmennirnir báru virðingu fyrir mér

Guðjón Valur segir að staða sín sem leikmaður hafi hjálpað sér á fyrstu skrefunum á þjálfarabrautinni.

„Það sem hjálpar kannski er hver ég er og hvar ég hef spilað. Leikmenn, sem þekktu mig ekki, báru virðingu fyrir mér einfaldlega því þeir höfðu séð mig spila. En þegar maður vinnur með mönnum á hverjum degi þarf maður sýna að maður sé traustsins verður og hafi eitthvað fram að færa,“ sagði Guðjón Valur.

Má ekki mikið út af bregða

Gummerbach hefur leikið vel það sem af er tímabili og er á toppnum í þýsku B-deildinni.

„Það hefur gengið ágætlega hingað til en maður finnur að það þá lítið út af bregða í þessari deild. Það mega ekki margir leikmenn hjá okkur meiðast, þá erum við varla miðlungslið í deildinni,“ sagði Guðjón Valur. „Ég er mjög glaður hvernig leikmennirnir æfa og taka á því. Þetta hefur verið gaman.“

Guðjón Valur viðurkennir að hann hafi gert fullt af mistökum á þessu fyrsta tímabili sínu sem þjálfari.

„Maður hleypur á marga veggi og ég geri mistök. Þegar ég horfi aftur á leiki hugsa ég af hverju ég gerði ekki þetta og hitt þarna. Svo skrifar maður stundum áætlun fyrir leiki og af sex til sjö punktum sem ég fer með inn í leiki er metið kannski að ná tveimur. Ég þarf að bæta mig mikið í því en þetta er gaman, ný vinna og mikil áskorun.“

Ekki raunhæft að halda sér uppi

Guðjón Valur segir að eins og staðan er í dag sé Gummersbach ekki með lið sem getur haldið sér í þýsku úrvalsdeildinni, komist liðið þangað á annað borð.

„Nei, ekki í augnablikinu. Ég myndi halda að það væri óraunhæft. Ef við færum upp með þetta lið held ég að ég lifi ekki af hálft ár í starfi í viðbót. En við vitum ekki í hvaða deild við spilum. Við þurfum að plana fyrir tvær deildir. Ef okkur tekst að fara upp yrði gríðarlega erfitt að halda sæti sínu þótt það væri klárlega markmiðið,“ sagði Guðjón Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×