Handbolti

Grænhöfðaeyjar draga sig úr leik á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stutt gaman. Grænhöfðeyingar léku aðeins einn leik á HM í Egyptalandi.
Stutt gaman. Grænhöfðeyingar léku aðeins einn leik á HM í Egyptalandi. epa/Anne-Christine Poujoulat

Lið Grænhöfðaeyja hefur dregið sig úr keppni á HM í handbolta karla í Egyptalandi vegna hópsmita í herbúðum þess.

Grænhöfðaeyjar neyddust til að gefa leikinn gegn þýsku strákunum hans Alfreðs Gíslasonar á laugardaginn þar aðeins níu leikmenn voru leikfærir. Hafa þarf að minnsta kosti tíu leikmenn á skýrslu í leik á HM.

Grænhöfðeyingar áttu að mæta Úrúgvæum í dag en ekkert verður af því þar sem þeir náðu ekki í lið og hafa dregið sig úr keppni. 

Úrúgvæ verður dæmdur sigur, 10-0, og liðið kemst því áfram í milliriðla þrátt fyrir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í A-riðli með samtals 55 mörkum.

Grænhöfðaeyjar töpuðu með sjö marka mun, 34-27, fyrir Ungverjalandi í fyrsta, og eina, leik sínum á HM. Þá voru ellefu menn á skýrslu en eftir leikinn greindust tveir leikmenn til viðbótar með kórónuveirusmit.

Grænhöfðaeyjar eru þriðja liðið sem dregur sig úr keppni á HM. Tékkland og Bandaríkin hættu við þátttöku áður en mótið hófst og Norður-Makedónía og Sviss tóku sæti þeirra. Holland, sem Erlingur Richardsson stýrir, var þriðja varaþjóð inn á HM.

Þýskaland og Ungverjaland mætast klukkan 19:30 í kvöld í úrslitaleik um toppsætið í A-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×