Handbolti

Dagur með Japan á ókunnum slóðum

Sindri Sverrisson skrifar
Dagur Sigurðsson einbeittur á hlilðarlínunni í leiknum gegn Angóla í dag.
Dagur Sigurðsson einbeittur á hlilðarlínunni í leiknum gegn Angóla í dag. EPA-EFE/Hazem Gouda

Dagur Sigurðsson er kominn með Japan í milliriðla á HM í handbolta í Egyptalandi. Það sem meira er, liðið tekur þangað með sér eitt stig eftir jafntefli við Króatíu.

Japan tryggði sér sæti í milliriðlakeppninni með sigri á Angóla í dag, 30-29. Japan fékk þar með þrjú stig í riðlinum en Angóla ekkert. Króatía er með þrjú stig og Katar fjögur en þau lið mætast síðar í dag. Engu að síður er ljóst að Króatía fer ekki með fullt hús stiga í milliriðilinn vegna jafnteflisins við Japan.

Í milliriðlinum mæta Dagur og hans menn liðum Danmerkur og Argentínu, auk annað hvort Kongó eða Barein sem leikur undir stjórn Halldórs Jóhanns Sigfússonar. Barein og Kongó mætast nú síðdegis.

Japan hefur ekki komist upp úr sínum riðli á HM síðan á heimavelli árið 1997 þegar liðið komst í 16 liða úrslit. Á síðasta heimsmeistaramóti varð liðið í 24. sæti eða því neðsta, en nú eru 32 þátttökuþjóðir á HM.

Japan var 16-12 yfir í hálfleik gegn Angóla í dag, eftir að hafa skellt í lás síðustu tíu mínúturnar fram að hléi.

Angóla kom sér hins vegar inn í leikinn þegar á leið seinni hálfleik og jafnaði metin í 27-27 þegar enn voru sjö mínútur eftir. Japan, sem dugði jafntefli til að komast áfram, var þó örlítið sterkara á lokasprettinum og landaði sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×